Jákvæð teikn í umhverfisumræðunni

Mynd: DeclanTM / flickr.com

Jákvæð teikn í umhverfisumræðunni

15.06.2015 - 16:16

Höfundar

Fréttir af umhverfismálum hafa flestar verið á neikvæðum nótum undanfarin ár. Þó má finna ljós í myrkrinu, sérstaklega í umræðu leiðandi manna á heimsvísu upp á síðkastið.

Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur gerir grein fyrir nýjustu tíðindum af þessum vettvangi í Samfélaginu í dag. Hann rekur ályktun nýafstaðins fundar G7 ríkjanna.  Loftslagsmál voru þar ofarlega á baugi og segir hann sæta tíðindum að valdamestu leiðtogar heims skuli tala þó jafn skýrt um málaflokkinn og raun bar vitni. Stefán bíður enn fremur í ofvæni eftir páfabréfi sem væntanlegt er á fimmtudag, 18. júní.  Búist er við að þar verði talað tæpitungulaust um loftslagsmál.  

-----------------------------------------  

Pistill Stefáns - G7 og loftslagsmálin

Síðasta föstudag kom Engilbert Guðmundsson, framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnu-stofnunar, í heimsókn í Samfélagið til að ræða við Hönnu G. Sigurðardóttur um helstu niðurstöður 41. leiðtogafundar G7 ríkjanna, sem haldinn var í Schloss Elmau í Bæjaralandi 7. og 8. júní síðastliðinn og um stöðu og horfur í þeim stóru málum sem varða alla heimsbyggðina og voru til umræðu á þessum tiltekna fundi. Loftslagsmál voru þar ofarlega á baugi og því er ekki úr vegi að rýna aðeins nánar í ályktun G7-fundarins hvað þau mál varðar, og hvaða áhrif þessi ályktun gæti haft á þróun mála á næstu mánuðum, árum og áratugum.

Í ályktun G7-fundarins er kveðið skýrt á um mikilvægi þess að á loftslagsráðstefnunni COP-21 í París í desember verði gengið frá bindandi samkomulagi með markmiðum sem verði skerpt jafnt og þétt eftir því sem árin líða, þannig að öll ríki feti sig inn á kolefnissnauða braut í samræmi við það meginmarkmið á heimsvísu að meðalhitastig á jörðinni hækki ekki um meira en 2 gráður frá því sem það var fyrir upphaf iðnbyltingar. Í ályktuninni er enn fremur lögð áhersla á að stefna þurfi að því að hætta alfarið að nota kolefniseldsneyti áður en 21. öldin er á enda runnin. Þá heita leiðtogar G7-ríkjanna því að stefna að 40-70% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2050, miðað við það sem hún var 2010 – og þá frekar nær efri mörkunum, þ.e.a.s. 70 prósentunum.

Í ályktun G7-fundarins er alllangur kafli um það hvernig ríkin ætla að tryggja að markmiðið um 100 milljarða dollara sjóð til að vinna gegn loftslagsbreytingum náist. En þar er líka að finna fleira áhugavert, m.a. fyrirheit um að afnema niðurgreiðslur í olíuhagkerfinu, en öfugt við það sem margir virðast halda nýtur olíuiðnaðurinn í heiminum gríðarlegra styrkja. Önnur og ekki síður mikilvæg yfirlýsing í ályktuninni er að leiðtogarnir heita því að taka mið af loftslagsmálum í ákvarðanatöku um þróunaraðstoð og fjárfestingar.

Umhverfisverndarsinnar virðast almennt álíta að ályktun G7-fundarins marki ákveðin tímamót. Það má kannski orða það svo að í þessari ályktun sé að finna nánast allt sem maður vill að sé þar, þ.e.a.s. ef „maður“ er umhverfisverndarsinni. En auðvitað snýst þetta ekki bara um það hvað er sagt, heldur líka hvernig það er sagt. Í þessu síðarnefnda liggur veiki punkturinn í þessu öllu saman frá sjónarhóli umhverfissinnans. Það skiptir nefnilega meginmáli að gripið verði til róttækra aðgerða fljótt, í stað þess að láta þær dragast fram undir þá eindaga sem nefndir eru í ályktuninni. Þannig er stór munur á því hvort 70 prósenta markmiðinu fyrir árið 2050 verði að mestu náð árið 2030 og 20 síðustu árin verði notuð til að ná því litla sem á vantar, eða hvort þessum árangri verði aðallega náð á árunum milli 2040 og 2050. Mörgum finnst sem sagt vanta í ályktunina skarpari tímasetningar í nálægari framtíð. Á hinn bóginn má benda á að þessi 35 ár fram til ársins 2050 eru hreint ekki svo löng eða léttvæg í orkugeiranum, því að orkuver sem byggð eru í dag verða sjálfsagt enn í fullri notkun árið 2050. Sama gildir um olíulindir sem teknar verða í notkun á allra næstu árum. Olían mun sjálfsagt halda áfram að streyma þaðan fram yfir árið 2050. Bindandi markmið fyrir árið 2050 ættu því að hafa verulega áhrif á ákvarðanatöku í samtímanum. Ef maður tekur markmiðið um 70% samdrátt í losun fram til árins 2050 alvarlega, er t.d. ljóst að héðan í frá verða engin kolaorkuver reist og engar nýjar olíulindir teknar í notkun.

Þegar maður veltir ályktun G7-fundarins fyrir sér er nauðsynlegt að hafa í huga hvers konar ályktun þetta er. Leiðtogar G7-ríkjanna eru nefnilega í misgóðri aðstöðu til að gefa skýr, tímasett og bindandi loforð. Þannig hefur verið á það bent að sem forseti Bandaríkjanna geti Barack Obama skrifað undir að stefna beri að þessu og hinu, en um leið og orðalag ályktunarinnar væri orðið bindandi þyrfti hann samþykki Bandaríkjaþings, þar sem enn sitja allmargir þingmenn, sérstaklega úr röðum repúblikana, sem efast um að maðurinn eigi nokkurn þátt í loftslagsbreytingum. Þegar allt kemur til alls er ályktunin því líklega eins ákveðin og hún getur verið eðli málsins samkvæmt. Það hefði alla vega þótt saga til næsta bæjar fyrir 5 eða 10 árum að leiðtogar Kanada, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Japans, Bretlands og Bandaríkjanna hefðu komið sér saman um eftirfarandi fjögur grundvallaratriði:

  1. Að hætta þurfi niðurgreiðslum jarðefnaeldsneytis
  2. Að hafa þurfi loftslagsmál í huga þegar teknar eru ákvarðanir um þróunaraðstoð og fjárfestingar
  3. Að draga þurfi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 70% fyrir árið 2050
  4. Að þjóðir heims þurfi að hætta að nota jarðefnaeldsneyti

Hvað síðastnefnda atriðið varðar, þ.e.a.s. þetta með að hætta að nota jarðefnaeldsneyti, þá vilja þjóðarleiðtogarnir, eins og áður sagði, að þess konar eldsneyti verði úr sögunni árið 2100. Þetta finnst mörgum umhverfisverndarsinnum hreint ekki nógu metnaðarfullt, heldur þurfi að stefna að jarðefnaeldsneytislausum heimi eigi síðar en árið 2050. En kannski er aðalniðurstaðan samt þessi: Jafnvel þótt ályktunin frá G7-fundinum í Elmau bindi engar hendur og jafnvel þótt engum kolaorkuverum verði lokað í næstu viku hennar vegna, þá sætir það samt tíðindum að valdamestu leiðtogar heims skuli tala þó þetta skýrt um loftslagsmál. Þetta gefur vissulega tóninn fyrir loftslagsfundinn í París í desember og eykur bjartsýni manna um að þar verði teknar ákvarðanir sem máli skipta.

Leiðtogar G7-ríkjanna eru vissulega þungaviktarmenn og orð þeirra og ályktanir hljóta að hafa töluvert vægi. En svo ég gerist nú persónulegur og tali bara fyrir sjálfan mig, þaðan sem ég sit dags daglega í Borgarnesi, þá bíð ég með meiri spenningi eftir því hvað Frans páfi hefur fram að færa í páfabréfinu sem kvað vera væntanlegt á fimmtudaginn. Og ég er ekki einn um þessa óþreyju, því að mér skilst að aldrei hafi nokkurs páfabréfs verið beðið með þvílíkri eftirvæntingu frá upphafi vega. Búist er við að í þessu sögulega páfabréfi verði talað tæpitungulaust um loftslagsmál og nauðsyn þess að gera róttækar breytingar á hagkerfum heimsins og neysluvenjum fólksins sem þar býr.