Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Jafnréttissjóður samþykktur - einn á móti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stofnun Jafnréttissjóðs Íslands var samþykkt á sérstökum hátíðarþingfundi á Alþingi í morgun í tilefni af 19. júní og þar með hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna. Markmið sjóðsins er að fjármagna og styrkja verkefni sem ætlað er að stuðla að frekari framþróun á sviði jafnréttismála.

 Fær sjóðurinn af fjárlögum 100 milljónir króna á ári næstu fimm árin. Stofnun sjóðsins var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, nema einu. Sigríður Á Andersen (D) greiddi atkvæði gegn henni.

Fyrst til að taka til máls í umræðu um jafnréttissjóðinn var Þórunn Egilsdóttir (B). Hún minntist frumkvöðla í kvenréttindabaráttu í ræðu sinni. Hugsjónin sem birtist í verkum þeirra hefði styrkst og dafnað á Íslandi. Svo mjög að nú væri landið í efsta sæti í alþjóðlegum samanburði um jafnrétti kynjanna. Fullu jafnrétti væri þó ekki náð og betur mætti ef duga skyldi. 

Katrín Júlíusdóttir (S) vitnaði til þess að þó að konur á þing hefðu verið um þriðjungur þingmanna frá því um aldamótin þá hefði konum enn ekki tekist að fylla helming sætanna í þingsal, hvað þá meira. 

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands horfði líka til sögunnar í ávarpi sínu og þess hve torsótt réttindin voru. Ekki mætti gleyma því heldur að við þessi tímamót þýddi örbirgð ekki lengur ævarandi útlegðardóm frá áhrifum í lýðræðissamfélagi.
Ásýnd Alþingis hafi heldur ekki snarbreyst þó að rétturinn væri fenginn. Það hefði ekki verið fyrr en á síðasta þriðjungi þessarar aldar sem stjórnmálaþátttaka kvenna fór að setja svip sinn á störf Alþingis. 

Enn glími milljónir kvenna við örbirgð og kúgun og á tímamótum mætti ekki gleyma þeim í gleði hátíðahaldanna. Konur í fjarlægum álfum og í fátækrahverfum Vesturlanda ættu langa ferð fyrir höndum til að ná þeim áfangastað sem markaði tilveru Íslendinga á hverjum degi. Hann hvatti þingheim til að strengja þess heit að bregðast þeim ekki. 

 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV