Jafnréttisaðgerðir hafa ekki borið árangur

26.06.2019 - 16:48
Mynd: Ragnar Visage / RÚV
Í nýrri rannsókn kemur fram að jafnrétti sé ábótavant innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglan sé mjög karllæg stofnun og kynferðisleg áreitni og einelti mikið. Í rannsókninni voru settir á fót umræðuhópar þar sem lögreglumenn og borgaralegt starfsfólk lögreglunnar gat rætt reynslu sína innan stofnunarinnar.

Gyða Margrét Pétursdóttir, dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands, og Kristín Anna Hjálmarsdóttir, sérfræðingur í kynjafræði, gerðu rannsóknina. Rannsóknin var svokölluð aðgerðarannsókn sem fól í sér að skapa öruggan umræðuvettvang fyrir starfsfólk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangurinn var að kortleggja stöðu stofnunarinnar, finna hvað betur mætti fara og stuðla að breytingum innan hennar. Rannsókninni voru gerð skil í grein í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla. Kristín Anna var gestur Samfélagsins á Rás eitt og ræddi niðurstöðurnar. 

Karllæg stofnun

„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er mjög karllæg stofnun. Staðan hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er svipuð og á landsvísu en aðeins betri. Það vinna bæði lögreglumenn og borgaralegt starfsfólk hjá lögreglunni,“ segir Kristín. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé lýsandi fyrir lögregluna í heild því helmingur starfsfólks í báðum hópum vinnur þar.

Konur eru í meirihluta í borgaralegum störfum innan lögreglunnar en aðeins um 16–18% af lögreglumönnum eru konur. Að sögn Kristínar miðar hægt að breyta þessu og lítið um konur í efri starfsstigum. „Það gengur hægt að fjölga konum í efri starfsstigum lögreglunnar því þetta er starf sem þú vinnur þig upp í þannig það tekur tíma að komast upp þessi átta þrep sem eru innan lögreglunnar,“ segir Kristín.

Mikið um kynferðislega áreitni og einelti

Jafnréttisaðgerðir innan lögreglunnar hafa ekki skilað árangri. „Kynferðisleg áreitni og einelti hefur mælst mjög hátt og þetta er ekkert einsdæmi og þekkist út um allan heim. Menningin er mjög karllæg virðist vera og það hefur lítið gengið að breyta því,“ segir Kristín. 

Innan lögreglunnar er skýr stefna um að kynferðisleg áreitni verði ekki liðin en þrátt fyrir það koma fáar tilkynningar á borð yfirmanna og sérfræðinga. Á meðan engar tilkynningar berast er ekki hægt að taka á málum. „Það eru verklagsreglur og fagráð lögreglunnar, sem er sjálfstætt starfandi, og þar er einvala lið einstaklinga en það koma engar tilkynningar. Starfsmenn hafa gott aðgengi að yfirmönnum sem þeir geta tilkynnt til en tilkynningar berast ekki og þar með er ekki hægt að leysa úr málum.“

Vandamálið menningarbundið

„Verklagsreglur um tilkynningar á kynferðislegri áreitni miðast við að þetta séu einstaklingar sem er verið að taka á en vandamálið innan lögreglunnar, eins og eflaust víða annars staðar, er að þetta er menningarbundið vandamál ekki síður en einstaklingsbundið. Þú getur ekki tekið á því með kæru eftir kæru,“ segir Kristín. Einnig sé orðræðan ekki vinsamleg konum og bjóði hvorki konur, né þá karla sem samlagast illa menningunni, velkomin.

Kristín segir að mikilvægt sé að opna umræðuna og ræða kynferðislega áreitni. Skilningur fólks á hugtakinu sé misjafn, það sem einum þykir saklaust geti farið yfir mörk annars. Í umræðuhópunum sem stofnaðir voru kom skýrt fram að kynferðisleg áreitni var skilgreind þröngt, sem líkamleg áreitni eingöngu. Húmor geti þó verið þáttur af kynferðislegri áreitni og í umræðuhópunum komu fram sjónarmið sem fást ekki í hefðbundinni fræðslu.

„Það er oft viðkvæðið að þetta sé hálfgerður aumingjaskapur, að þola ekki einhverja tiltekna tegund af bröndurum eða geta ekki haft húmor fyrir sjálfum sér,“ segir Kristín og bendir á að með brandara sé vel hægt að fara yfir mörk sem gera brandarann særandi og meiðandi í stað þess að hann sé fyndinn.

Umræðuvettvangurinn veitir tækifæri

Að sögn Kristínar er umræðuvettvangurinn hagnýtt tæki sem fleiri gætu nýtt sér. Í umræðuhópunum náist dýpri umræða þar sem fólk fái tækifæri til að segja það sem því liggur á hjarta en jafnframt þjálfi þetta fólk í að ræða málin. Það skipti einnig miklu máli að umræðuvettvangurinn sé öruggur og að fólk viti að það sem það segir í umræðuhópnum fari ekki lengra. „Það skiptir miklu máli að skapa þannig umhverfi og sátt í þessum hópum að það sé hægt að ræða hluti þarna.“

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi