Jafnöruggt fyrir hraustar konur að fæða heima

12.08.2019 - 09:27
Mynd: Pixabay / Pixabay
Ár hvert kjósa um áttatíu konur að fæða börnin sín heima. Konur sem kvíða fæðingunni kjósa það gjarnan fram yfir að fæða á Landspítalanum hjá ljósmóður sem þær hafa ekki áður hitt.

Kristbjörg Magnúsdóttir, ljósmóðir, hefur tekið á móti börnum heima í rétt nærri fimmtán ár. Hún segir að til þess að heimafæðing sé álitlegur kostur þá þurfi kona að treysta sér til að fæða heima. Gagnkvæmt traust á milli móður og ljósmóður skipti miklu máli og rannsóknir hafi sýnt að fyrir heilbrigðar konur séu heimafæðingar jafn öruggar og fæðingar á sjúkrahúsi. 

„Fyrir heilbrigðar hraustar konur sem eiga von á heilbrigðu barni þá er búið að sýna fram á í rannsóknum að það er jafn öruggt að fæða heima og fyrir þessar konur sem finnst þetta rétt fyrir sig,“ segir Kristbjörg.„Það eru rosalega sterkar skoðanir á heimafæðingum og þó nokkuð af konum sem segja engum frá því að þær stefna á heimafæðingu af því að það eru mjög margir sem reyna að tala þær ofan af því og segja að þetta sé svo hættulegt en öryggið er nánast það sama.“

Um 15-20 prósent kvenna sem ætla sér að fæða heima flytjast á hverju ári úr heimafæðingu á sjúkrahús vegna þess að eitthvað kemur upp á. Kristbjörg segir að yfirleitt sé farið með konur á sjúkrahús vegna þess að fæðingin gengur hægt, konurnar vilja verkjadeyfingu eða þurfa hjálp við að koma barninu í heiminn. 

Mælir ekki með að konur séu einar í fæðingunni

Heimafæðingar geta verið fjölbreyttar, sumar konur kjósa að hafa fáa viðstadda á meðan aðrar vilja hafa stórfjölskylduna á staðnum. Þetta sé spurning um að konan geri það sem henni líður best með. Kristbjörg segir að konur sem finni fyrir kvíða finni öryggi í því að þekkja ljósmóðurina sem tekur á móti barninu. „Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi finna oft fyrir öryggi að þekkja manneskjuna og vera heima,“ segir hún.

Hún mælir þó ekki með því að konur séu einar og án nokkurs stuðnings í fæðingunni en segist skilja viðhorf þeirra. Það sé ekki algengt að konur kjósi að enginn heilbrigðisstarfsmaður komi að fæðingunni og segist vita um þrjár konur sem hafi fætt einar á síðustu fimm árum. 

Að sögn Kristbjargar hafa heimafæðingar staðið í stað síðustu tíu ár og það sé ákveðin pressa á konur að fara á sjúkrahús því það sé hættulegt að fæða heima. „Við erum heppin á Íslandi því við höfum lög og réttindi sjúklinga, við höfum val um hvort og hvenær við þiggjum heilbrigðisþjónustu,“ segir Kristbjörg. Því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að konur sem eru hraustar og heilbrigðar fæði heima og fyrir þessar konur séu heimafæðingar góður valkostur. 

Hlusta má á viðtalið við Kristbjörgu í heild í spilaranum hér að ofan.

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi