Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Jafna rétt eigenda og leigjenda

11.09.2013 - 08:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Stuðningur við leigufélög og breytingar á byggingarreglugerð er meðal þess sem lagt er til í þingsályktunartillögu um eflingu leigumarkaðarins, sem þingmenn Samfylkingar lögðu fram á Alþingi í gær.

Lagðar eru til húsnæðisbætur sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og jafni rétt þeirra sem leigja og þeirra sem eiga húsnæði. Þá er lagt til að leigutekjur af einni leiguíbúð verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti. Þannig verði húseigendur hvattir til þess að leigja út íbúðir á almennum leigumarkaði í stað þess að leigja þær erlendum ferðamönnum til skamms tíma. Einnig er lagt til að efla sérstök leigufélög sem skuldbindi sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði, meðal annars með styrkjum frá sveitarfélögum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir að stóra línan sé að styrkja umgjörð leigufélaga og þeim gert auðveldara að starfa. Einnig að ríkið bjóði fram ónýttar lóðir til að hægt verði að byggja leiguhúsnæði á þeim og að Íbúðalánasjóði verði sett ströng tímatakmörk áður en hann þarf að setja íbúðir sínar á leigu eða selja. Þá vill Árni Páll að byggingarreglugerð verði endurskoðuð til þess að auðvelda byggingu á ódýru húsnæði.

Byggingareglugerðin sem lagt er til að breyta var samþykkt í tíð síðust ríkisstjórnar. Hann segir að margt bendi til þess að hún sé of ströng fyrir þarfir leigumarkaðarins. Hann segir mikilvægt að leita fyrirmynda og gera hana eins einfalda og mögulegt sé án þess að slakað sé á gæðakröfum.