Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ítrekuð vanskil hjá Nasa

08.01.2012 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Eigandi hússins sem hýsir tónleikastaðinn NASA við Austurvöll segist ekki hafa sagt upp leigusamningi við veitingamanninn. Samkomulag hafi náðst um að rekstri þar verði hætt 1. júní, vegna ítrekaðra vanskila. Hann segir rekstrargrundvöll tónleikastaðarins brostinn.

Ingibjörg Ófeigsdóttir sem rekið hefur tónleikastaðinn NASA við Austurvöll fullyrti í fréttum að eigandi hússins, Pétur Þór Sigurðsson héraðsdómslögmaður, hefði sagt upp leigusamningi við sig frá og með fyrsta júní, og hann hyggist láta rífa húsið og byggja hótel á reitnum. Pétur segir þetta ekki rétt. „Reyndar hef ég ekki sagt upp leigusamningnum. Hins vegar hitt ég rekstraraðilann, Ingu, á föstudaginn og gerði henni grein fyrir því að það gengu ekki lengur þessi stöðugu vanskil og langvarandi. Ég sagði að því yrði að linna og að hún mætti vera fram á sumarið, fram til 1. júní. Það tengist ekki nokkurn skapaðan hlut niðurrifi á Nasa eða framtíðaruppbyggingu þar.“

Pétur segir alls óvíst hvort tónleikastaðurinn verði rifinn. Nú sé í gangi hugmyndasamkeppni í góðri sátt við Reykjavíkurborg um uppbyggingu á reitnum. Pétur á sæti í dómnefndinni, en segir framtíð svæðisins ekki í sínum höndum. Eitt sé víst að gamli kvennaskólinn, framhlið hússins að Austurvelli, verði aldrei rifið, enda friðað.

Páll Óskar Hjálmtýsson skærasta poppstjarna landsins ætlar að grípa til aðgerða verði ákveðið að rífa tónleikasalinn. Pétur segir engan grundvöll fyrir rekstri Nasa eins og sakir standa. „Það held ég að sé algjörlega útilokað því það hefur enginn rekstrargrundvöllur verið þarna síðustu árin. Hún hefur margoft farið yfir það með mér. Eftir hrun hætti fólk að koma og í kjölfar þess að Harpan var opnuð hafa listviðburðir sem voru þarna farið þangað, eins og skærasta poppstjarna landsins skein þar í haust en hefur ekki verið á Nasa svo ég hafi tekið eftir.“