Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ítrekað ekið á fólk við Hörgárbraut á Akureyri

11.02.2020 - 23:05
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Íbúar við Hörgárbraut á Akureyri hafa fengið sig fullsadda af tíðum slysum við götuna. Kona sem slasaðist alvarlega og missti hundinn sinn vill að bæjaryfirvöld grípi inn í áður en fleiri slys verða.

„Ég kastaðist með bílnum“

Jóhanna Ásmundsdóttir, kennari lenti í alvarlegu slysi á götunni fyrir tveimur árum síðan. Hún segir mikilvægt að bæjaryfirvöld finni lausn á málinu.

„Þetta eru fjórar akreinar og ég var með hundinn minn og við göngum hérna yfir, ég er komin yfir þrjár akreinar og á fjórðu akrein þá átta ég mig á að bíll er að koma á fullri ferð og hægir ekki á sér. Ég náði að stökkva svona síðasta partinn þannig að hann tók bara fótinn á mér og ég kastaðist með bílnum en hundurinn hann flaug alveg niður að brú niðurfrá. Fjörutíu kílóa hundur og dó samstundis,“ segir Jóhanna. 

„Ef það er ekki hægt að hægja á akstrinum þá þarf einhverveginn að birgja, annað hvort með brú eða undirgöngum þannig að fólk komist á milli þessara svæða.“

Fjögur alvarleg slys á fimm árum

Auk slyssins sem Jóhanna lenti í var árið 2016 ekið á mann á götunni sem slasaðist alvarlega. Árið 2018 var ekið á fimm ára dreng á sama stað og hann slasaðist einnig alvarlega. Þá varð alvarlegt slys á götunni um liðna helgi þegar ekið var á sjö ára stúlku.

Funda um málið strax á morgun

Tryggvi Már Ingvarsson formaður skipulagsráðs Akureyrar segir að málið verði tekið fyrir í skipulagsráði strax í þessari viku.

„Við erum búnir að fara í heilmiklar úrbætur í samstarfi við Vegagerðina á síðasliðinum árum þar sem við breyttum aðkomunni að þessum gatnamótum sem og bættum lýsingu hvort það er nóg er eitthvað sem við þurfum virkilega að skoða.“

Kemur til greina að hægja á umferð eða fara í einhverjar slíkar aðgerðir á þessu svæði?

„Já mér finnst það koma vel til greina.“