Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ítölsk stjórnvöld grafa undan björgunarstarfi

24.09.2018 - 03:37
In this photo taken on Friday, June 1, 2018 the rescue vessel Aquarius ship approaches the Pozzallo harbor, Southern Italy. Spain stepped up Monday, June 11, 2018 and offered to take in a rescue ship carrying more than 600 migrants after Italy and Malta
Leitar- og björgunarskipið Aquarius utan við höfnina í Pozzallo á Ítalíu, 1. júní. Ítalar og Maltverjar neituðu að taka við förufólkinu um borð. Sú saga er nú að endurtaka sig. Mynd: AP
Framtíð björgunarskipsins Aquariusar, sem hjálparsamtökin Læknar án landamæra og SOS Mediterranee hafa notað til leitar- og björgunarstarfa á Miðjarðarhafi síðustu misseri, er í uppnámi. Skipið er skráð í Panama, en í tilkynningu frá Læknum án landamæra segir að stjórnvöld í Panama hafi synjað umsókn þeirra um að sigla því áfram undir panömsku flaggi vegna þrýstings frá ítölskum stjórnvöldum. „Þessi ákvörðun dæmir hundruð karla, kvenna og barna til dauða," segir í yfirlýsingu samtakanna.

Þá sé þetta „reiðarslag fyrir útgerð eina leitar- og björgunarskipsins á Miðjarðarhafinu, sem enn er haldið úti af frjálsum félagasamtökum,“ segir í yfirlýsingunni.

Samtökin sóttu um það í ágúst að halda Aquariusi áfram á panamskri skipaskrá. Á laugardag barst þeim formlegt svar frá Siglingamálastofnun Panama. Þar er sagt berum orðum að ítölsk stjórnvöld hafi lagt hart að stofnuninni að grípa til „tafarlausra aðgerða“ gegn Aquariusi. Því sjái stofnunin sig knúna til að útiloka Aquarius frá skipaskrá Panama, þar sem skráning þess hefði „pólitísk vandræði í för með sér fyrir ríkisstjórn Panama og skip undir panömskum fána sem sigla til evrópskra hafna.“

Krefja ESB um tafarlausar aðgerðir

Hvortveggja Læknar án landamæra og SOS Mediterranee krefjast þess að stjórnvöld í Evrópuríkjum sjái til þess að Aquarius geti haldið áfram að sinna sínu mikilvæga verkefni, annað hvort með því að staðfesta við yfirvöld í Panama að hótanir Ítalíustjórnar séu innistæðulausar eða með því að bjóða fram annan fána fyrir Aquarius að sigla undir.

Fórna mannslífum fyrir pólitískan frama

Karline Kleijer, yfirmaður neyðaraðstoðar Lækna án landamæra, segir evrópska stjórnmálaleiðtoga augljóslega ekki skirrast við að beita æ hrottalegri og grimmilegri aðferðum til að þjóna eigin pólitísku hagsmunum og fórni hiklaust mannslífum, telji þeir það geta orðið þeim til framdráttar.

„Síðustu tvö ár hafa leiðtogar Evrópu lýst því yfir að fólk eigi ekki að deyja á hafi úti,“ segir Kleijer, “en á sama tíma hafa þeir framfylgt hættulegum og illa ígrunduðum stefnumálum sem hafa aukið enn á neyðarástandið á Miðjarðarhafi og í Líbíu enn verra.“

Brýnt sé að binda enda á þessar hörmungar, en til þess verði Evrópusambandið að leyfa Aquariusi og öðrum leitar- og björgunarskipum að halda áfram að veita þá lífsnauðsynlegu aðstoð þar sem hennar er svo augljóslega og sárlega þörf.

Í yfirlýsingu samtakanna segir að Læknar án landamæra og SOS Mediterranee fordæmi framgöngu ítalskra stjórnvalda í þessu máli. Hún sýni glögglega hversu langt Ítalíustjórn sé tilbúin að ganga, „vitandi að einu afleiðingarnar verða þær að fólk mun halda áfram að deyja á hafi úti og að engin vitni munu verða á staðnum til að telja hina dauðu.“ 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV