Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ísraelskt geimfar á leið til tungslins

22.02.2019 - 06:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrsta ísraelska geimfarinu var skotið á loft í gærkvöld frá Canaveral höfða í Flórída. Falcon 9 geimflaug SpaceX kom geimfarinu á braut um jörðu, en þaðan flýgur það áfram á eigin vélarafli til tunglsins. Ferðin þangað á að taka um sjö vikur.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, fylgdist með flugtakinu ásamt verkfræðingum í stjórnstöð flugmálastofnunar Ísraels í gær. 

Geimfarið Beresheet, sem er ísraelska orðið yfir sköpunarsöguna, var að öllu leyti fjármagnað af einkaaðilum. Þegar farið lendir á tunglinu verður Ísrael aðeins fjórða ríkið til þess að takast það, á eftir Rússum, Bandaríkjunum og Kína. Lendingin sjálf er stærsta verkefnið, að sögn AFP fréttastofunnar, en í geimfarinu eru einnig tæki sem geta mælt segulsvið tungslins. Þau gætu hjálpað til við að skilja lögun tunglsins. Auk þess er nokkurs konar tímahylki um borð í Beresheet, það inniheldur Biblíu, teikningar eftir börn, ísraelska söngva, endurminningar manns sem komst lífs af úr helförinni auk ísraelska fánans.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV