Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ísraelsher gerir loftárásir í Sýrlandi

10.02.2018 - 13:31
epa04518968 (FILE) A file photo dated 27 June 2013 showing a Israeli Air Force F-15I tactical fighter jet taking off for an air show presented at a graduation ceremony of new pilots of the Israeli Air Force at the Hatzerim Air Force base, outside
Ísraelsk orrustuþota. Mynd: EPA - EPA FILE
Ísraelsher hefur gert loftárásir á tólf skotmörk í Sýrlandi í dag eftir að ísraelsk herþota var skotin niður í morgun, á heimleið úr árásarferð í Sýrlandi. Vélin hrapaði til jarðar í Gólanhæðum, Ísraelsmegin við sýrlensku landamærin, en flugmennirnir komust af. 

Talsmenn Ísraelsher segja að í morgun hafi verið ráðist á hernaðarleg skotmörk sem tengjast bæði Sýrlandsher og herafla frá Íran í Sýrlandi.

Átökin hófust eftir að ísraelsk herþyrla stöðvaði dróna sem sendur hafði verið yfir landamærin til Ísraels.

Rússnesk stjórnvöld báðu í morgun alla hlutaðeigandi að halda að sér höndum, því líf rússneskra hermanna í Sýrlandi væru í hættu vegna loftárása Ísraela. 
 

 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV