Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ísraelsflug þýðir aukinn viðbúnað hjá Isavia

07.09.2017 - 14:30
Mynd með færslu
Auknar kröfur í öryggisleit farþega til og frá Ísrael Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Flugfélagið Wow Air byrjar áætlunarflug til Tel Aviv í Ísrael mið. 13. sept. Isavia hefur þurft að breyta viðbúnaði sínum á Keflavíkurflugvelli vegna þessa.

Stjórnvöld í Ísrael setja strangar kröfur til dæmis um vopnaleit til þeirra landa sem fljúga til og frá Ísrael. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia hafi yfirvöld í Tel Aviv þegar verið í samskiptum við Isavia vegna þessa. Isavia uppfylli þær kröfur í öryggisleitinni í Leifsstöð. Ekki eru gefnar upplýsingar um í hverju þessar auknu kröfur felast. 

„Öll flugfélög sem fljúga til Ísrael þurfa að uppfylla kröfur ísraelskra stjórnvalda (MOT) vegna flugverndar“ segir í svari Wow Air við fyrirspurn Fréttastofu. Það sama á við um flugfélagið og Isavia að þeim er ekki heimilt að gefa upp hvað felst í þessum kröfum.  Því geti Wow Air ekki tjáð sig frekar, segir í svarinu. 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV