
Íslenskur fararstjóri með í utanvegaakstri
Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri staðfesti þetta í samtali við fréttastofu í morgun og segir þetta hafa verið samvinnuverkefni þriggja lögregluumdæma, á Suðurlandi, Norðurlandi Eystra og Austurlandi. „Á Suðurlandi voru fjórir ökumenn sektaðir um 100.000 krónur hver, og á okkar svæði, Norðurlandi Eystra, voru þessir fjórir sektaðir um 250.000 hver. Einn af þeim er íslendingur, sem titlaði sig sem fararstjóra hópsins, en ekkert bendir til þess að hann sé starfsmaður einhverrar ferðaskrifstofu,“ segir Jóhannes.
Allt Evrópubúar
Um 25 ferðamenn voru í þessum hóp sem um ræðir. Þau ferðuðust um landið á breyttum jeppum frá íslenskri bílaleigu. Allir þessir ferðamenn komu frá Evrópuríkjum. Jóhannes segir það ekki koma á óvart. „Í fyrra voru gefnar út sextán sektir vegna utanvegaaksturs og í öllum þeim málum, nema einu, var um evrópskt ferðafólk að ræða,“ segir Jóhannes. „Í einu máli var Íslendingur sektaður.“
Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun voru ellefu franskir ferðamenn í þessum hópi sem sektaður var á Norðurlandi eystra í fyrra.
Háar sektargreiðslur
Lögregla hefur heimild til að leggja á sektir allt að hálfri milljón króna, en það fer eftir því hversu brotið er alvarlegt. Jóhannes segir að sektin sem var lögð á ferðamenninna á þriðjudag sé sú hæsta sem fulltrúar hans hafi rukkað til þessa. „Okkar tilfinning er að á þessu ári séu að koma færri mál af þessu tagi en áður, enda er ljóst að landverðir á hálendinu og lögregla sjálf hafa gert gangskör í því að upplýsa erlenda ferðamenn um reglur sem þetta varðar.“