Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslenskunni fagnað í öllum hljómbrigðum

Mynd:  / RÚV

Íslenskunni fagnað í öllum hljómbrigðum

16.11.2017 - 09:02

Höfundar

Á degi íslenskrar tungu 16. nóvember er íslenskunni fagnað í öllum þeim hljómbrigðum sem finna má. Í aðdraganda dagsins birtust á menningarvef RÚV myndskeið sem varpa ljósi á mismunandi raddir íslenskunnar.

Herferðin heitir Raddir íslenskunnar og er á vegum Borgarbókasafnsins, Stofnunar Árna Magnússonar og Veraldar – húss Vigdísar. Í myndskeiðunum eru viðmælendur spurðir tveggja spurninga: Af hverju er íslenskan mikilvæg fyrir þig? og Af hverju ert þú mikilvæg/-ur fyrir íslenskuna?

Hvetja fólk til að deila örmyndböndum

Stofnanirnar hvetja nemendur, kennara og einstaklinga til að vinna saman að gerð örmyndbanda og leita svara við þessum spurningum, sem eiga að vekja okkur til umhugsunar um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur og um okkar eigið framlag til tungumálsins. Myndböndin mega ekki vera lengri en ein mínúta og merkja skal myndböndin með myllumerkinu #dagurislenskrartungu en þeim má einnig deila á vegg dags íslenskrar tungu á Facebook.

„Raddir íslenskunnar“ er yfirskrift á Café Lingua í Gerðubergi í dag, 16. nóvember kl. 17:00. Deginum verður fagnað með því að spjalla saman og leita svara við þessum tveimur spurningunum og einnig verða sýnd nokkur myndbönd úr herferðinni.