Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Íslenskir vísindamenn á áhrifalista

19.06.2014 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd:
11 vísindamenn sem starfa á Íslandi eru á lista Thompson Reuters fjölmiðla- og upplýsingasamsteypunnar yfir áhrifamestu vísindamenn samtímans. Allir stunda þeir rannsóknir hjá Íslenskri erfðagreiningu nema einn, Þorsteinn Loftsson, prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands er á listanum, en auk hans Daníel F. Guðbjartsson og Unnur Þorsteinsdóttir, vísindamenn við ÍE og rannsóknaprófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá eru á listanum Augustine Kong, Guðmar Þorleifsson, G. Bragi Walters, Hreinn Stefánsson, Jeffrey R. Gulcher, Patrick Sulem og Valgerður Steinþórsdóttir, vísindamenn hjá ÍE.

Á lista Thomson Reuters eru alls yfir 3000 vísindamenn sem raðað er eftir því hversu mikið aðrir vísindamenn styðjast við rannsóknarniðurstöður þeirra; þ.e. hversu oft vitnað er til þeirra rannsókna í greinum annarra. Á listanum koma fyrir höfundar þess eina prósents útgefinna vísindagreina sem mest er vitnað í á tuttugu og einu fræðasviði.

Á lista Thomson Reuters kemur líka fram að erfðafræðirannsóknir eru það svið raunvísindanna sem mest gróska er í um þessar mundir, miðað við fjölda tilvitnana í birtar fræðigreinar. Í þeim tíunda hluta úr prósenti af birtum fræðigreinum, sem mest er vísað til árin 2012 og 2013, voru 12 af 17 höfundum vísindamenn á sviði erfðavísinda.

Skoða má listann í heild og fræðast frekar um hann hér.