„Þetta er búið að vera magnað ferli. Fyrsta sinn sem ég kem til Afríku og það var magn- og tilfinningaþrungið. Ég er ættaður frá Angóla sem er neðar í álfunni. En ég er búinn að bíða eftir því mjög lengi að fá tækifæri til að koma,“ segir Logi Pedro Stefánsson, einn íslensku tónlistarmannanna sem heimsótti Sierra Leone.
„Ég tek með mér hvað tónlistin er sterk, hún hefur fært mig hingað og gefið mér færi á að kynnast þessu fólki. Að fá að heyra sögur frá krökkum sem fengu kannski ekki að fara í skóla en geta sungið. Hvað tónlistin getur fært manni mikla gleði og mikið líf, ég tek það með mér. “
Undir það tekur Hildur Stefánsdóttir. „Þetta er búið að vera mjög skemmtileg upplifun. Ég er búin að kynnast mörgu fólki með allt annan bakgrunn en ég hef. Og það að vera tónlistarmaður eða kona hér í Sierra Leone er ótrúlega öðruvísi veruleiki. Það er gott stundum þegar manni finnst erfitt að vera tónlistarmaður á Íslandi að minna sig á að það getur verið miklu erfiðara á öðrum stöðum, til dæmis hér.“