Íslenskir jólaslagarar reynast ítalskir

Mynd: Rai / Youtube

Íslenskir jólaslagarar reynast ítalskir

07.12.2012 - 21:10

Höfundar

Aðventan er hafin og af því tilefni rifjum við upp þessa sígildu frétt um uppruna nokkurra vinsælustu jólalaga Íslendinga.

Í Hollywood hafa menn löngum hagnast á að endurgera erlendar kvikmyndir. Svipað er tíðkað meðal íslenskra tónlistarmanna en hér á landi þrífst jólaiðnaðurinn að nokkru leyti á endurgerð ítalskra poppslagara.

Það er alkunna að fjölmörg íslensk jólalög eru íslenskanir á erlendum lögum. Mörg bandarísk jólalög hafa verið þýdd, eins og White Christmas og The Christmas Song. Sálmar á borð við Heims um ból og Ó helga nótt eru heldur ekki annað en jólasálmar frá Austurríki og Frakklandi.

Það vekur hins vegar athygli hveru mörg vinsæl íslensk jólalög reynast við nánari skoðun vera endurvinnsla á ítölskum poppslögurum sem upprunalega hafa lítið eða ekkert með jólin að gera.

Hér eru þau dæmi sem fréttastofu er kunnugt um. Í upptökunni hér fyrir ofan má sjá ítölsku og íslensku lögin borin saman. Hér fyrir neðan eru svo ítölsku lögin í heild sinni. Flestir íslensku textarnir eru ýmist eftir Jónas Friðrik Guðnason eða Þorstein Eggertsson.

Cosi Celeste er hjartnæmur ástaróður með ítalska rokksöngvaranum Zucchero sem í þýðingu Jónasar Friðriks fékk titilinn Ef ég nenni.

Quanto ti amo var framlag poppsveitarinnar I Collage á Sanremo-tónlistarhátíðinni 1984 en útleggst í þýðingu Þorsteins Svona eru jólin.

Söngkonan Spagne keppti einnig í Sanremo, með lagið Gente come noi, árið 1995. Jónas Friðrik nefnir sinn texta Þú og ég og jól.

Ci Sarà með suðræna stjörnudúettinum Al Bano og Rominu Power sigraði í Sanremo 1984. Romina er elsta dóttir hjartaknúsarans Tyrone Power. Þú og ég nefnist það í búningi Þorsteins.

Poppsveitin Ricchi e Poveri flutti lagið Chi voglio sei tu sem við texta Jónasar Friðriks útleggst Þú komst með jólin til mín.

Hér er svo enn eitt framlagið úr Sanremo, frá 1988. Þetta nefnist Dopo la tempesta, með poppdrottningunni Marcellu. Ég hlakka svo til hét það þegar Svala Björgvinsdóttir söng það, við texta Jónasar Friðriks.

Að lokum: Gente di Mare, margrómað framlag Ítala í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva 1987, með félögunum Umberto Tozzi og Raf. Fimmtán árum síðar kom það út við íslenskan texta Gunnars Ólasonar og nefndist þá Komdu um jólin.

Tengdar fréttir

Tónlist

RÚV.is telur í jólin