Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslenskir fjárfestar draga sig út úr áformunum

12.08.2016 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Burbanks Capital
Íslenskir fjárfestar hafa dregið sig út úr áformum um að reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ. Þeir segjast ósáttir við að ekki hafi verið vilji til að upplýsa hvaða erlendu fjárestar standa að sjúkrahússbyggingunni.

Áætlanir fjárfesta, um að reisa einkasjúkrahús álíka dýrt nýjum Landspítala í Mosfellsbæ, hafa reynst umdeildar. Aðalforsvarsmaður fjárfestingarinnar, Hollendingurinn Henri Middeldorp, fer fyrir íslensku fyrirtæki, sem forsvarsmenn sögðu fyrr í sumar vera að mestu í eigu hollensks félags, Burbanks Holding, en VHE vélaverkstæði í Hafnarfirði og Gunnar Ármannsson, innanhússlögmaður vélaverkstæðisins, ættu 1% hlut hvor. Gunnar, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Læknafélags Íslands, hefur um nokkurra ára skeið staðið fyrir áformum um að koma á fót heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga á Íslandi.

Nú hafa Gunnar, og forstjóri vélaverkstæðisins, sagt sig úr stjórn íslenska félagsins sem heldur utan um fjárfestinguna. Gunnar segir í samtali við fréttastofu að hann og vélaverkstæðið hafi jafnframt afsalað hollenska móðurfélaginu hlutum sínum í því íslenska. Ágreiningur hafi verið uppi um hvenær ætti að upplýsa hvaða fjárfestar stæðu að baki hollenska móðurfélaginu. Íslensku fjárfestarnir hafi viljað gera það strax, í ljósi þess hversu mikið hitamál fjárfestingaráformin væru. Henri Middeldorp, sem segist sjálfur eiga um helmingshlut í hollenska félaginu, hafi aftur á móti ekki viljað upplýsa um fjárfestana fyrr en umsókn um fjárfestingarívilnum frá íslenskum stjórnvöldum yrði send inn, segir Gunnar. Því hafi íslensku fjárfestarnir ákveðið að draga sig alfarið út úr fjárfestingunni.

Samkvæmt þessu mun íslenska fjárfestingarfélagið nú alfarið vera í eigu hollenska félagsins Burbanks Holding, sem aftur er sagt vera í eigu Middeldorps og erlenda fjárfestahópsins sem ekki hefur fengist gefinn upp. Ekki náðist í Henri Middeldorp við vinnslu fréttarinnar.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV