Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Íslenskar krónur ófáanlegar í Bretlandi

21.11.2013 - 21:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Breskir ferðamenn, sem hafa hugsað sér að sækja Ísland heim, eru hvattir til að hamstra gjaldeyri hið fyrsta þar sem skortur sé á íslenskum krónum í landinu.

Í breska dagblaðinu Daily Telegraph segir að M&S bankinn hafi varað viðskipta sína við að krónur kunni að verða ófáanlegar á Bretlandseyjum innan tíðar. Mikill fjöldi Breta sé á leið til Íslands í vetur til að sjá norðurljósin og ekki sé nægur gjaldeyrir fyrir þá alla þar sem íslensk stjórnvöld vilji hafa sem fæstar krónur í umferð til að styrkja gengið.

Þegar blaðamaður Telegraph leitaði eftir upplýsingum frá íslenska sendiráðinu í Lundúnum fengust þau svör að hægt væri að nálgast krónur á Íslandi í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri á borð við bresk pund. Þá sé víðast hvar tekið við kortum á Íslandi og auðvelt sé að finna hraðbanka. Ekki er auðséð afhverju breskir ferðamenn ættu að hafa áhyggjur af því að komast ekki í íslenskar krónur.