Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Íslenska lögreglan vill vopn gegn IS

27.11.2014 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Hryðjuverkaógn, meðal annars frá samtökum sem kenna sig við íslamskt ríki, er ein ástæða þess að lögreglan hér á landi telur sig þurfa 150 hríðskotabyssur. Þetta segir Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri ætlar að óska eftir því við innanríkisráðherra að keyptar verði hríðskotabyssur fyrir almennu lögregluna á Íslandi. Hríðskotabyssurnar 250, sem Landhelgisgæslan fékk frá norska hernum bíða nú þess, að verða sendar aftur til Noregs. Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að lögreglan þyrfti 150 byssur MP5-hríðskotabyssur. Jón segir að það þurfi að hafa vopnaða lögreglumenn í Leifsstöð ef lýst sé hækkuðu vástigi varðandi flugvernd eða það komi viðvaranir erlendis frá um aukna hættu. Ekki er ljóst hvort að lögreglan fái 150 af þeim byssum sem Landhelgisgæslan hyggst skila Norðmönnum.

„Málið er bara núna í skoðun og þetta er bara staðan sem við stöndum frammi fyrir og mat okkar er óbreytt. Og við stöndum beinlínis líka frammi fyrir því að frá því í fyrra þegar við gerðum greinargerðina þá hefur hryðjuverkaógnin í Evrópu stóraukist. Og ekki þannig að hryðjuverkamenn séu að koma einhvers staðar frá heldur eru ISIS-samtökin í raun og veru að nota vefinn í mikilli áróðursherferð og til þess að fá borgara landanna sem eru áhangendur samtakanna til þess að fremja voðaverk í heimalandinu,“ segir Jón.

Vitið þið til þess að ISIS eigi áhangendur hér? - „Ja, nú má segja það að við vitum kannski minna en aðrar þjóðir, við höfum ekki öryggisþjónustu, og höfum ekki mannskap til þess að sinna mikið slíku eftirliti en við náttúrulega vitum hvað er að gerast í Evrópulöndunum og nágrannaríkjunum. Við sjáum bara í fréttum hvað er að gerast í Noregi og allar Evrópuþjóðir hafa sett þessa ógn sem mestu ógnina sem þau standa frammi fyrir í dag.“

Þannig að ykkur grunar að þeir eigi sér fylgismenn á Íslandi? „Nú vil ég ekkert segja um það en ég hins vegar tek það fram að það væri algjörlega óábyrgt af lögreglunni að gera ekki neinn viðbúnað til þess að geta tekist á við slíkt.“