
Íslensk velferð í 10. sæti á heimsvísu
Listinn, Social Progress Index (SPI), er tekinn saman af Social Progress Imperative stofnuninni, sem hefur aðsetur í Washington og London. Í tilkynningu frá SPI segir að við röðun ríkja á listann sé horft til þess sem stofnunin telji mestu skipta í tilveru fólks. Alls er byggt á 53 atriðum, en meðal lykilþátta eru lífslíkur, trúfrelsi, jafnrétti kynjanna og aðgangur að heilsugæslu, menntun og hagkvæmu húsnæði, svo eitthvað sé nefnt.
Michael Green, stjórnandi SPI, segir helstu ástæðu þess að Ísland féll úr 4. sætinu sem það var í 2015 niður í það 10. nú vera betri frammistöðu annarra þjóða. Gæði samfélagsinnviða á Íslandi hafi hreint ekki minnkað samkvæmt mæliaðferðum stofnunarinnar, heldur hafi þeir styrkst. Heildareinkunn Íslands nú er 88,45 af 100 mögulegum, en var 87,62 í fyrra. Sem fyrr segir er Finnland það land sem stendur sig best í að skapa borgurum sínum félagslega gott og öruggt umhverfi.
Deilum 10. sætinu með Nýja Sjálandi
Topp 12
1. Finnland (90,09)
2. Kanada (89,49)
3. Danmörk (89,39)
4. Ástralía (89,13)
5. Sviss (88,87)
6. Svíþjóð (88,80)
7. Noregur (88,70)
8. Holland (88,65)
9. Bretland (88,58)
10. Ísland og Nýja Sjáland (88,45)
12. Írland (87,94)
Peningar eru ekki allt
Eins og sjá má á þessum lista er munurinn milli efstu ríkja afar lítill. Rannsóknin leiðir glögglega í ljós, að þótt peningar séu mikilvægir, þá eru þeir ekki allt. Þannig eru meðaltekjur Finna lægri en allra annarra ríkja á topp tíu listanum, og bæði Bandaríkin (19) og vellauðug Arabaríki á borð við Sameinuðu arabísku furstadæmin (39), Kúvæt (45) og Sádi-Arabíu (65) skora mun lægra.
Þótt efnisleg gæði ráði ekki öllu um félagslegan aðbúnað þjóða heims, þá leiðir rannsóknin engu að síður jafn glögglega í ljós að töluverð fylgni er milli tekna fólks og aðstæðna að öðru leyti.
Gott loft, hreint vatn og jafnrétti, en vantar upp á trúfrelsi og umburðarlyndi gagnvart innflytjendum
Eitt af því sem lesa má út úr rannsókninni er hversu vel eða illa einstök lönd koma út á tilteknum sviðum í samanburði við þau ríki sem næst þeim standa þegar horft er til meðaltekna íbúa. Þegar niðurstöðurnar fyrir Ísland eru skoðaðar kemur í ljós að hér er betur séð fyrir grunnþörfum alls almennings en víðast hvar annars staðar. Tækifæri til þroska, menntunar og starfsframa eru í meðallagi, en undirstöður velferðarsamfélagsins eru ótraustari en í helstu samanburðarlöndum.
Ef horft er til einstakra þátta sýnir sig að Ísland er flestum löndum fremra hvað aðgang að hreinu vatni, hreinu lofti og interneti snertir, jafnrétti kynjanna er hér meira en í flestum löndum öðrum sem SPI og við berum okkur helst saman við og hér stunda líka hlutfallslega giska margir háskólanám.
Á móti kemur að hér eru hlutfallslega mun færri háskólar sem ná inn á alþjóðlega gæðalista, aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði er verra hér en í samanburðarlöndunum og málfrelsi mætti vera meira. Þá eru Íslendingar óþarflega feitir og eftirbátar samanburðarþjóðanna hvað varðar umburðarlyndi gagnvart innflytjendum, frárennslismál og verndun vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni.
Raunverulegt trúfrelsi er hér einnig minna en í helstu samanburðarlöndum samkvæmt þeim aðferðum sem SPI beitir, og kemur þar væntanlega einkum til mun sterkari staða Þjóðkirkjunnar en annarra trúfélaga í íslenskum lögum og stjórnsýslu.
SPI skalinn er sem fyrr segir unninn upp úr 53 vísum um félagslega frammistöðu ríkja, en samtals búa um 99% mannkyns í löndunum 133, sem rannsókn SPI náði til að þessu sinni. Social Progress Imperative er sjálfstæð rannsóknastofnun sem starfar án hagnaðarsjónarmiða.
Hér má nálgast skýrslu SPI um stöðu mála á heimsvísu og hér má sjá helstu niðurstöður sem varða Ísland sérstaklega.