Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Íslensk tónlist í brennidepli í Los Angeles

Íslensk tónlist í brennidepli í Los Angeles

25.02.2016 - 11:29

Höfundar

„Það er mikill áhugi á íslenskri tónlist og Íslandi sem menningarþjóð og þetta endurspeglast í því,“ segir Daníel Bjarnason, listrænn stjórnandi Reykjavík Festival – tíu daga tónlistar- og listahátíð sem Los Angeles fílharmónían efnir til í apríl á næsta ári. Los Angeles fílharmónían er ein virtasta og framsæknasta sinfóníuhljómsveit heims en íslensk samtímatónlist hefur ekki verið í brennidepli á jafn viðamikilli tónlistarhátíð áður.

Daníel stýrir Reykjavík festival ásamt finnska hljómsveitarstjóranum Esa-Pekka Salonen. Á hátíðinni kemur fram fjöldi íslenskra tónlistar- og listamanna og flutt verða að minnsta kosti fjögur ný verk sem fílharmónían hefur pantað sérstaklega af íslenskum tónskáldum, þar á meðal Daníel sjálfum en hann hefur unnið mikið með hljómsveitinni undanfarin ár.

„Þetta mun flæða út úr tónleikasalnum og inn í miðborg LA. Það verður mikið af viðburðum á stöðum í kring og í rauninni allar tegundir tónlistar sem verða þarna í boði og aðrar listgreinar líka í brennidepli,“ segir Daníel.  

Los Angeles fílharmónían er ein virtasta og framsæknasta sinfóníuhljómsveit heims en hún leikur mikið af samtímatónlist í bland við gamla klassík. Heimili hennar er Walt Disney Concert Hall, eitt þekktasta tónleikahús Bandaríkjanna en tónlistarstjóri er Gustavo Dudmael, sem stýrði Gautaborgarsinfóníunni á frægum tónleikum í Hörpu 2011.

„Þau geta framkvæmt hluti sem aðrir geta látið sig dreyma um, til dæmis að taka þverskurð af tónlistarlífi og listalífi Reykjavíkur og flytja það í heilu lagi til Los Angeles í tíu daga. Það er í rauninni það sem þau eru að gera,“ segir Daníel.

Tengdar fréttir

Stefnumót við tónskáld: Daníel Bjarnason