Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslensk gervimenni herja á landann á Facebook

19.07.2016 - 19:11
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels.com
Margir Íslendingar hafa orðið varir við skyndilega fjölgun á vinabeiðnum á Facebook-síðum sínum. Í mörgum tilvikum ber persónan sem sendir vinabeiðnina íslenskt nafn. Yfirleitt er þó eitthvað bogið við persónuna, óeðlileg stafsetning nafns eða kyn nafns og persónu á aðalmynd stemma ekki. Flestum er ljóst að ekki er um raunverulega manneskju að ræða, hvað þá íslenska.

Íslensk nöfn ný af nálinni

Að sögn Gísla Jökuls Gíslasonar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er um að ræða fjöldaframleiddar gervi-Facebook-síður sem eru gerðar til þess eins að hafa fé af fólki á einn eða annan hátt. Slíkar gervipersónur eru ekki nýjar af nálinni en það er þó ný þróun að þær beri íslensk nöfn. Ekki verður betur séð en að svikahrappar séu að herja á Ísland um þessar mundir.

„Breytingin nú er að það er verið að íslenska nöfnin. Ég veit ekki alveg hvort það sé snjallt vegna þess að þeim var að ganga ágætlega þegar þeir þóttust vera konur frá Suður-Evrópu. Það hefur verið meira vinsælt hingað til. Ég held að þeir vilji frekar búa til nafn sem þú heldur jafnvel að þú kannist við,“ segir Gísli.

Fjallað var um málið í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Mér má sjá dæmi um líklegan gervimann sem vildi vingast við fréttamann nú í dag.

Gísli Jökull bendir á að aðferð svikahrappanna að nota íslensk nöfn kunni frekar að draga úr virkni svikanna. „Þá kemur íslenska nafnið pínulítið að gagni fyrir okkur af því að fólkið áttar sig ekki alltaf á –son og –dóttir endingum nafna. Það er ýmislegt að þvælast fyrir eða einhverju er troðið inn eins og þú sért frá Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem er ekki alveg það fyrsta sem ungt fólk segir í dag,“ segir Gísli Jökull. Hann telur líklegast að viðkomandi hafi einfaldlega flett upp lista yfir íslensk nöfn og noti þann lista við að búa til Facebook-síðurnar.

Upplýsingar á svarta markaði

Hann telur ekki ólíklegt að um sé að ræða hóp svikahrappa sem herji nú sérstaklega og skipulagt á íslenska Facebook-notendur. „Grunurinn er sá að ef það er einhvers staðar jákvæð svörun, þetta er eins og með veiðimenn sem standa við á, ef það virðist vera hægt að ná fleiri fiskum á einhverjum ákveðnum stað, þá færa menn sig hægt og rólega þangað. Við vitum að þeir sem stunda svona netglæpi eru margir hverjir með þokkalega gott tengslanet. Síðan ganga upplýsingar kaupum og sölum á netinu, það getur verið að einhverjar upplýsingar um aðila sem eru líklegri en aðrir til að falla í gildrur. Þá er það orðið að söluvöru innan glæpaheimsins,“ segir Gísli Jökull.

Hann segir að áhugi svikahrappa á Íslandi kunni að stafa af því að þeim hafi tekist að svíkja fé af íslenskum mönnum. „Við vitum að það hefur verið dálítið af íslenskum mönnum sem hafa lent í því að samþykkja svona vinabeiðnir frá stúlkum sem reynast vera óvenju vergjarnar og þeir eru að skiptast á upplýsingum við þær.“

Fréttatíminn fjallað nýverið um slíkt mál.

Oft brenglun á kyni

Gísli Jökull segir aðferðir svikahrappanna geta verið misjafnar. „Hvað það er sem er bak við svindlið hverju sinni er mismunandi. Það getur verið loforð um samband sem á að vera raunverulegt, það að þeir hafi kynnst konu sem þeir telja að sé sálufélagi þeirra og vill endilega koma til Íslands. Það getur líka verið þannig að konan sendir klámmyndir og þeir eiga að senda klámmyndir á móti og þá lenda þeir í fjárkúgun. Síðan eru ýmiss konar afbrigði frá þessu, þannig að það er ekki alltaf víst nákvæmlega hvert svindlið stefnir,“ segir hann. Stundum liggi gerviaðgangar óvirkir þar sem svikahrappar hafa ekki við að eltast við alla þá sem hafa samþykkt vinabeiðni.

Oftast sé auðvelt að sjá hvort um sé að ræða gerviaðgang á Facebook. „Viðkomandi á enga eðlilega vini og virðist vera fædd fullþroska manneskja í kringum 25 ára. Allt í einu vill hún kynnast einhverjum ókunnugum. Það er ekkert raunhæft í þessu,“ segir Gísli Jökull.

Nokkuð algengt virðist að kyn nafns og forsíðumyndar stemmi ekki. „Það er alveg stórmerkilegt, það höfum séð á öðrum prófílum sem við höfum verið að fá inn. Það er oft brenglun á kyni. Þetta virðist vera gert í talsverðu magni á stuttum tíma.“

Að sögn Gísla Jökuls er helstu óþægindin við að samþykkja vinabeiðnir, að því gefnu að viðkomandi blekkist ekki, að þá lendi maður mögulega á lista yfir móttækileg fórnarlömb. Þá geti vinabeiðnum gervimanna fjölgað enn.  

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV