Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Íslensk fyrirtæki reistu rússneska verksmiðju

05.09.2019 - 19:49
epa07818667 Russian President Vladimir Putin speaks at a plenary session of the Eastern Economic Forum 2019 in Vladivostok, Russia, 05 September 2019. Russian far-eastern city of Vladivostok hosts the Eastern Economic Forum 2019  from 04 to 06 September 2019.  EPA-EFE/ALEXANDER NEMENOV / POOL
Vladimir Pútín ávarpar þátttakendur á efnahafsmálaráðstefnu í Vladivostok í morgun. Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Íslensk fyrirtæki settu upp tæknibúnað í nýrri vinnslustöð á einum afskekktasta stað heims. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, ræsti verksmiðjuna.

Verksmiðjan er í eigu rússneska fyrirtækisins Gidrostory og er á Shikotan-eyju, rússnesku yfirráðasvæði norður af Japan. Búnaðurinn í verksmiðjunni er hins vegar íslenskur og fyrirtækin Skaginn 3X, Frost, Rafeyri og Style komu að hönnun og smíði hans. Búnaðurinn gerir útgerðinni kleift að flokka, pakka og frysta níu hundruð tonn af uppsjávarfiski á sólarhring. Verðmæti samningsins hleypur á milljörðum króna. 

Eins og gefur að skilja kostar heilmikið umstang að koma upp heilli verksmiðju svo langt frá heimaslóðunum og til verksins þurfti að flytja um hundrað og sextíu gáma frá Íslandi til Shikotan-eyju.

 „Þetta er mikið púsluspil. Þú ert að flytja bæði frá landsbyggðinni til Reykjavíkur, frá Reykjavík til Evrópu og frá Evrópu suðurleiðina til Pusan og frá Pusan til Shikotan eyju. Við höfum lent í því að vera allt að sjö daga að koma mannskap þangað, það fer allt eftir veðri og vindum. En vanalega er þetta tveggja til þriggja daga ferðalag,“ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri Skagans 3X.

Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, ræsti verksmiðjuna við hátíðlega athöfn á Eastern Economic Forum, viðskiptaráðstefnu sem nú stendur yfir í Vladivostok í austurhluta Rússlands. Pétur segir að þetta sé til marks um áherslu rússneskra stjórnvalda á að efla innlenda matvælaframleiðslu.

Sú áhersla er að stórum hluta til komin vegna viðskiptabanns sem vestrænar þjóðir lögðu á Rússland vegna ólöglegrar innlimunar Krímskaga árið tvö þúsund og fjörtán. Því má segja að viðskiptabannið hafi komið þessum íslensku fyrirtækjum til góða, þótt enn sé í gildi innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir í Rússlandi. „Já, það raunar gerði það. En endurnýjunarþörfin var þar til staðar.“

Þetta er ekki eina verkefnið sem Skaginn 3X vinnur að í Rússlandi því auk verksmiðjunnar á Shikotan-eyju vinnur fyrirtækið að uppsetningu verksmiðja í Múrmansk og Kamtsjatka.

 

Magnús Geir Eyjólfsson