Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Íslendingum bannað að skoða náttúruperlur

01.04.2013 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingum verður bannað að skoða margar helstu náttúruperlur landsins í sumar til að vernda þær fyrir ágangi. Bannið gildir ekki um erlenda ferðamenn þar sem talið er að það hefði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna.

Meðal vinsælla ferðamannastaða, sem eingöngu verða opnir erlendum ferðamönnum í júní, júlí og ágúst, eru Gullfoss og Geysir, Almannagjá, Seljalandsfoss og Landmannalaugar.

Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, segir lokunina  neyðarúrræði. „Eftir síðasta sumar varð okkur ljóst að íslensk náttúra þolir ekki allan þennan ágang ferðamanna þannig að við sjáum ekki önnur úrræði í dag heldur en að takmarka umferð ferðamanna verulega næsta sumar um helstu náttúruperlur landsins,“ segir Kristín.

Hún segir ástæðuna fyrir því að þessar lokanir taki eingöngu til Íslendinga en ekki útlendinga vera að erlendir ferðamenn hafi nú þegar keypt sér ferðir til landsins. „Og við verðum auðvitað að taka tillit til þeirra, á meðan flestir Íslendingar hafa séð þessar náttúruperlur eða hafa hina níu mánuði ársins til að fara þangað.“

Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, segir að þeim lítist mjög illa á þessar aðgerðir og þau séu auðvitað ekki hrifin af því að það þurfi að takmarka aðgang Íslendinga að íslenskri náttúru.  „En í ljósi aðstæðna tökum við undir með Umhverfisstofnun að þetta eru nauðsynlegar aðgerðir.“

Forsvarsmenn Ferðafélags Íslands eru afar ósáttir og hafa boðað til mótmæla fyrir utan Alþingishúsið klukkan átta í kvöld. Þar ætla þeir að reisa tjaldbúðir og nú seinnipartinn var fólk þegar farið að tjalda. „Við hvetja alla okkar félagsmenn og alla innlenda ferðamenn, alla Íslendinga sem hafa áhuga á að ferðast og sækja þessi svæði heim að fjölmenna niður á Austurvöll í kvöld,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

Athugasemd: Þessi frétt birtist 1. apríl og ber ekki að taka hana alvarlega.