Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Íslendingum að þakka að ráðið hittist á ný

20.06.2017 - 20:52
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV
Sigmar Gabriel utanríkisráðherra Þýskalands segir það mikinn árangur Íslendinga að það hafi tekist að halda fund utanríkisráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins í Reykjavík í dag í fyrsta skipti í fjögur ár vegna Úkraíunudeilunndar. Hann vonast til þess að fundurinn marki nýtt upphaf. 

Eftir fund utanríkisráðherranna í Hörpu nú síðdegis kom utanríkisráðherra Þýskalands, sem jafnframt er varakanslari, í Höfða og átti þar fund með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

Borgarstjóri sýndi þýska utanríkisráðherranum Höfða og gestabókina frægu sem þeir Reagan og Gorbachov skrifuðu nöfn sín í fyrir meira en 30 árum.

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir - RÚV

 

Sigmar Gabriel telur árangur af fundinum í Hörpu vera ótvíræðan. „Já, það var árangur Íslendinga og utanríkisráðherra Íslands því Íslandi hefur nú tekist að binda enda á margra ára tímabil, hlé á talstöðvarsambandi eins og við myndum segja í Þýskalandi, þar sem þessi samstarfsríki hafa ekki hist á fundum. Hið pólitíska ástand hefur verið þannig, vegna innrásar Rússa á Krímskaga og átakanna í Austur-Úkraínu, að fulltrúar ríkjanna hafa ekki hist á þessum vettvangi, og það er Íslendingum að þakka að þrátt fyrir þessa erfiðleika hafi ráðið loksins hist að nýju.“

Ráðherrarnir hafi komið víða við í viðræðum sínum í Hörpu í dag segir Gabriel og erfitt sé á þessu stigi að tala opinberlega um niðurstöður. Árangur fundarins sé þó að tekist hafi að ná þessum ráðherrum saman til fundar. 

Var þetta ef til vill nýtt upphaf? „Ég vona svo sannarlega að þetta marki nýtt upphaf og eins og ég sagði lögðu Íslendingar mikið á sig og það gleður mig að þetta hafi tekist,“ segir Sigmar Gabriel. 

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV