Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslendingar sagðir á spítala vegna gruns um kórónaveiru

27.01.2020 - 23:11
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Tveir Íslendingar eru sagðir hafa verið lagðir inn á spítala á Torrevieja á Spáni vegna gruns um að hafa smitast af kórónaveirunni. Fólkið er sagt vera í einangrun á spítalanum.

Spænska útvarpsstöðin Ser fullyrðir að þar sé um að ræða 66 ára gamla konu og 52 ára gamlan mann, sem voru í fríi á Alicante þegar annað þeirra fann fyrir vanlíðan, hita og hósta. Læknar hafi ákveðið að kannað skyldi hvort þau væri smituð af kórónaveirunni. Sú ákvörðun hafi verið tekin eftir að ljóst var að fólkið hefði verið i Wuhan í Kína, þar sem veiran er talin eiga upptök sín. 

Eftir að fólkið var lagt inn á spítalann í Torrevieja voru tekin sýni úr því og þau send til Madrídar þar sem reynt verður að fá staðfestingu á því hvort þau eru sýkt af kórónaveiru.

Ser segir að heilbrigðisyfirvöld á Spáni hafi staðfest að fólkið hafi verið lagt inn. Hins vegar ætli þau að vera spör á yfirlýsingar þangað til í ljós kemur hvort það er raunverulega smitað eða ekki. 

Óvissustigi var lýst yfir á Íslandi í dag vegna kórónaveirunnar. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði í kvöldfréttum RÚV að það þýddi að verið væri að formgera vinnu sem hefur staðið undanfarið og bæta upplýsingamiðlun. 

Fréttin hefur verið uppfærð.