Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Íslendingar óhræddir við sprengisíma

11.10.2016 - 11:52
Mynd með færslu
Þessi Samsung Galaxy Note 7 sími bráðnaði í höndum eiganda síns, 13 ára stúlku í Farmington, Minnesota. Símann fékk hún í stað samskonar síma, sem hún skilaði vegna innköllunar Samsung á slíkum símum í september. Mynd: AP
Rafeindatækjarisinn Samsung hvetur alla eigendur snjallsíma af gerðinni Galaxy Note 7 til að slökkva á símum sínum. Jafnframt hefur Samsung tekið fyrir alla sölu á þessum símtækjum. Fjöldi fólks hefur keypt símann í forsölu á Íslandi og segir markaðsstjóri umboðsaðila að örfáir hafi hingað til viljað fá endurgreitt.

Björn Björnsson, markaðsstjóri Tæknivara, umboðsaðila Samsung-síma á Íslandi, segir að nokkuð hundruð manns hér á landi séu búnir að kaupa Galaxy Note 7 í forsölu. Viðkomandi séu búnir að greiða fyrir símann en fyrsta sending hafi ekki verið komin til landsins þegar komst upp um galla sem veldur því að í sumum tilvikum kviknar í símanum og rafhlöður springa.

Björn segir að mjög fáir Íslendingar hafi hingað til viljað fá endurgreitt. Síminn verður þó ekki seldur né afhentur hér á landi fyrr en rannsókn er lokið á því hvað veldur þessum stórhættulega galla.

Í síðustu viku þurfti að rýma farþegaflugvél þegar reyk lagði frá nýjum og endurbættum síma af þessari tegund, sem var í fórum eins farþega. Daginn eftir tilkynnti maður að hann hefði vaknað í reykfylltu herbergi, og að reykinn hefði lagt frá nýja símanum sem var ónýtur eftir. Á föstudag barst þriðja tilkynningin, þá hafði sími af þessari gerð nánast bráðnað í höndum 13 ára stúlku.