Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Íslendingar mestu klámnotendurnir

12.07.2012 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk ungmenni sækja meira í klámefni á internetinu en önnur börn. Þetta eru niðurstöður rannsóknar um netnotkun barna í átta löndum.

Eru virkari

Það var Háskólinn á Akureyri sem kannaði netnotkun nemenda í níunda og tíunda bekk á Íslandi. Samkvæmt rannsókninni nota íslensk ungmenni internetið mest í gegnum eigin fartölvur, spjaldtölvur og síma:

„Þannig að þau hafa möguleika á að nota internetið svona meira „prívat". Síðan ef við horfðum á svona hvers konar efni þau eru að skoða þá allavegana eru íslensku krakkarnir heldur „aktívari" en krakkarnir sem við erum að skoða í öðrum löndum til þess að skoða klámefni á netinu," segir Kjartan Ólafsson, lektor við félagsvísindadeild í HA.

Sækja í afþreyingu

Kjartan segir muninn áhugaverðan og geta átt sér ýmsar skýringar; mögulega séu íslensk börn hreinskilnari en þau í samanburðarlöndunum. Þó skuggahliðarnar séu ýmsar sæki börnin þangað að mestu leyti í afþreyingu, leiki og samfélagsmiðla eins og Facebook.

Á meðan alþjóðasamfélagið takist á um hvernig gera eigi internetið að öruggu umhverfi sýni allar rannsóknir fram á að foreldrar eigi einfaldlega að ræða það sem þar er að finna. Foreldrar eigi að „láta sig varða það sem krakkarnir gera, taka þátt í því sem þau eru að gera, kynna sér það sjálfur," segir hann.

Ræðum við börnin

„Við ræðum auðvitað við börnin okkar um það hvað okkur finnst vera rétt og rangt og hérna og það á við um internetið eins og annars staðar, mannlegt siðferði gildir þar eins og annars staðar," segir Kjartan.