Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íslendingar í Noregi geta komist heim þrátt fyrir lokun

15.03.2020 - 11:14
Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Þrátt fyrir að fyrirhugað sé að loka landamærum Noregs frá og með morgundeginum vill sendiráð Íslands í Ósló vekja athygli á því að Íslendingar sem búsettir eru í Noregi geta áfram flogið til og frá landinu.

Landamærum verður lokað fyrir erlenda ríkisborgara án dvalarleyfis í Noregi. Sendiráð Íslands bendir þó á að flugvellir verða opnir fyrir alþjóðlegt flug frá Noregi, svo ferðamenn og erlendir ríkisborgarar geta farið úr landi og til síns heima eftir lokun á morgun.

Ríkisborgarar frá EES-ríkjunum, þar með taldir Íslendingar, og fjölskyldur þeirra sem eru búsett eða starfa í Noregi munu geta komið til landsins eftir lokanir á mánudag. Þá verður innanlandsflug í Noregi óbreytt.

„Íslenskir ríkisborgarar sem eru staddir í Noregi en hafa heimilisfestu á Íslandi eða óska eftir að komast til Íslands er bent á að kanna og bóka sín flug beint í gegnum flugfélögin,“ segir í tilkynningu frá sendiráðinu. Það mælir jafnframt með því að almenningur kynni sér og fylgist vel með tilkynningum frá norskum stjórnvöldum þar sem fyrirmæli breytast oft með mjög skömmum fyrirvara.