Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Íslendingar dansa ekki eftir takti“

Mynd: RÚV/SKOT / RÚV/SKOT

„Íslendingar dansa ekki eftir takti“

02.10.2019 - 16:54

Höfundar

Páll Óskar Hjálmtýsson hefur spilað á fleiri böllum en hann getur talið – og væntanlega séð nær öll þau dansspor sem Íslendingum er fært að stíga. Páll segir frá í Sporinu, nýjum þætti um dans á RÚV.

Í fyrsta þætti Sporsins, sem sýndur verður á laugardag á RÚV, skoðar Guðrún Sóley Gestsdóttir hvernig dansinn fylgir okkur frá fæðingu og jafnvel fyrr. Þar verður svara leitað við því hvenær við tökum fyrstu danssporin og hvers vegna sumir eru með næma tilfinningu fyrir takti en aðrir taktlausir með öllu. Einnig er fjallað um hvernig dansinn breytist frá æsku til unglings- og fullorðinsára og reynt að komast til botns í því hver aðalávinningurinn af honum er.

Berglind Pétursdóttir er á meðal sérfræðinga sem rætt er við í fyrsta þættinum. Berglind, sem er menntuð í dansi, segir að Íslendingar séu á heildina litið ekki mikil dansþjóð – en fyrir því sé góð ástæða. „Það er ekki okkur að kenna. Það er landinu og veðrinu að kenna. Ef það er kalt þá ertu ekkert að fara að láta loftið leika um líkamann. Það var engin stemning fyrir því í torfbæjum í gamla daga að bresta í einhvern dans.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/SKOT
Berglind Pétursdóttir.

Páll Óskar Hjálmtýsson hefur marga fjöruna sopið í þessum málum og komið fram á óteljandi tónleikum og böllum. „Eftir þessi skrilljón böll sem ég hef spilað á í lífinu þá er ég búinn að komast að því að Íslendingar dansa ekki eftir takti – þeir dansa eftir textum,“ segir hann. „Það er bara einhvern veginn ekki til í miðtaugakerfinu hjá okkur að hreyfa okkur með mjöðmunum. En við getum farið á fyllerí, skellt okkur út á gólf, sungið og venjulega hoppum við jafnfætis á gólfinu.“

Páll segir að það sé eins og Íslendingar hafi ekki fengið leyfi til að dansa með mjöðmunum. „Ég hef líka verið svo heppinn að fá að þeyta skífum fyrir fólk sem er örugglega ekki Íslendingar. Þar skiptir engu máli hvað ég set á fóninn, þar og þá dansar liðið eftir „bítinu“. Það er stórkostlegt að upplifa það líka. En þetta er stærsti munurinn sem ég hef séð og fundið á eigin skinni í mínu starfi.“

Sporið er íslensk þáttaröð í sex hlutum um dans. Þar er leitað svara við spurningum um hvers vegna fólk dansar, hvernig dansgleðin kviknar og hvers vegna sumir fæðast flinkir dansarar en aðrir taktlausir flækjufætur. Farið verður yfir sögu dansins á Íslandi, mismunandi danstegundir kannaðar og kynnast áhorfendur því hvernig dansinn brýst fram á ólíklegustu stöðum. Fyrsti þáttur verður sýndur á laugardagskvöld á RÚV, klukkan 19.45.