Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Íslendingar borga minna en útlendingar

09.07.2014 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslendingar greiða lægra verð fyrir ferðir með flugfélaginu Erni en aðrir. Flugfélagið heldur úti tveimur útgáfum af vefsíðu sinni, annarri á íslensku og hinni á ensku. Í sumum tilfellum er verðið sem útlendingum býðst meira en helmingi hærra.

Hjón með tvö börn sem fljúga til og frá Vestmannaeyjum 19. júlí greiða 92 þúsund krónur fyrir það, borgi þau almennt fargjald. Jafn stór erlend fjölskylda, sem hyggst fljúga á sama tíma með sömu flugvél, greiðir hins vegar fyrir það 807 evrur, sem jafngildir um 125 þúsund krónum. Munurinn er 33 þúsund krónur. Þeim sem panta á íslensku síðunni bjóðast einnig nettilboð og eiga því kost á talsvert ódýrara flugi, en það býðst ekki á ensku síðunni.

Hörður Guðmundsson, forstjóri Ernis, þvertekur fyrir að viðskiptavinum sé mismunað með þessu. Hann telur eðlilegt að útlendingar greiði meira fyrir flug innanlands, enda sé það niðurgreitt af ríkinu fyrir skattfé Íslendinga. „Hluti af þeim leiðum sem við erum að fljúga á innanlands eru niðurgreiddar af ríkinu til að gefa Íslendingum kost á því að komast á milli staða á ódýran og hagkvæman hátt. Við sjáum ekki ástæðu til þess að skattfé landsmanna sé notað í að niðurgreiða fargjöld fyrir erlenda aðila sem borga í evrum og hafa gert á óbreyttu verðlagi síðan fyrir hrun. Það hefur engin hækkun orðið í verði í evrum. Frekar lækkað heldur en hitt."

Ef þjónusta er seld á sömu forsendum, á sama tíma, á mismunandi verði fyrir Íslendinga annars vegar og útlendinga hins vegar getur það verið brot á fjórfrelsisákvæðum EES-samningsins um þjónustuviðskipti. Neytendastofu barst kvörtun í fyrrasumar vegna tvöfaldrar verðlagningar á heimasíðu Ernis. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni var á þeim tíma ekki aðhafst í málinu þar sem starfshættir flugfélagins virtust ekki brjóta í bága við þau lög sem Neytendastofa hefur eftirlit með. Stofnunin geti ekki gripið til aðgerða gagnvart fyrirtækjum ef þau fara ekki eftir lögum EES um þjónustuviðskipti.