Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslandspóstur fær alþjónustuframlag

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhanns Jónsson - RUV.is
Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsókn Íslandspóst um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna erlendra póstsendinga en vísaði frá umsókn vegna þriggja annarra atriða.

Íslandspóstur sótti í fyrra um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna fjögurra þátta, hraða og tíðni sendinga, erlendra bréfa, dreifingar í dreifbýli og sendinga fyrir blinda.

Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt umsóknina er varðar erlendar póstsendingar en vísað hinum frá. Þetta kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar og vísað er til ákvörðunar nr. 13/2019.

Rökstyður hún ákvörðun sína með því að Íslandspósti sé skylt að sinna alþjóðlegum skuldbindingum Íslands vegna aðildar ríkisins að UPU, Alþjóðapóstsambandinu, sem og til 6. gr. laga um póstþjónustu og rekstrarleyfis fyrirtækisins.

Stofnunin segir að ófjármögnuð byrði Íslandspósts vegna erlendra sendinga hafi numið 1.463 milljörðum króna á rúmlega fjögurra ára tímabili, frá  30. október 2014 til 31. desember 2018. Það eru 350 milljörðum króna að meðaltali á ári. Jöfnunarsjóði alþjónustu sé heimilt að greiða þennan kostnað.

„Hafi þá verið tekið tillit til fyrningar krafna frá árunum 2013-2014 og að viðbættu árinu 2018. Jafnframt hafi krafa félagsins verið lækkuð vegna banns 1. mgr. 27. gr. þess efnis að ekki sé heimilt að sækja um framlag vegna alþjónustu vegna þjónustu sem heyrir undir einkarétt, en dreifing á póstsendingum erlendis frá undir 50 gr. falla undir einkarétt félagsins.“

Frá og með 3. júní bætist sendingargjald við sendingar sem koma með Póstinum frá útlöndum. Sendingargjaldið verður 400 krónur fyrir sendingar frá Evrópu en 600 krónur fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu og er því ætlað að standa undir kostnaði við dreifingu.

Íslandspóstur tapaði 293 milljónum króna á síðasta ári, miðað við 216 milljóna hagnað árið áður.