Íslands þúsund raddir

Mynd: Ós pressan / Ós pressan

Íslands þúsund raddir

16.03.2020 - 17:03

Höfundar

Fjórða hefti fjöltyngda skáldskapartímaritsins Ós the journal kom út 27. febrúar síðastliðinn og ber heftið titilinn „Eldtungan logar“. Mikið réttnefni því hér er á ferðinni tímarit sem logar af eldmóði fyrir bókmenntum, listum, náttúru og tungu, eins og segir í aðfararorðum ritsins.

Ós er félagsskapur fólks sem tók sig saman í kringum skriftir í framhaldi af námskeiðum Borgarbókasafnsins í Reykjavík í skapandi skrifum. Árið 2015, í tilefni að 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi, ákváðu allmargir í þessum hópi að standa saman að útgáfu tímarits þar sem allir þeir fjölmörgu höfundar sem tungumálsins vegna ná ekki nægilega vel að tengjast íslensku bókmenntalífi gætu komið saman skipst á reynslu, rætt um skáldskap og komið efni sínu á framfæri.  Allar götu síðan hefur þessum breytilega hópi tekist á hverju ári að koma frá sér tímariti fullu af áhugaverðu efni, ljóðum, sögum og hugleiðingum. 

Að þessu sinni má í tímaritinu finna efni eftir hvorki meira né minna en 36 listamenn, fáeina íslenska að ætt og uppruna sem þýðir að langflestir eiga sér eiginlegar rætur annars staðar á jarðarkringlunni, Mið – og norður Ameríku, Suðaustur Asíu, Norðulöndum, Mið-Evrópu, austur jafnt sem vestur og þar á milli, langt í suður sem og í Suður-Afríku.

Í Ós-pressunni er tungumálið ekki hindrun heldur möguleiki enda ljóðin og sögurnar á ellefu ólíkum tungumálum. Langflest skáldanna búa eða hafa búið á íslandi til lengri eða skemmri tíma, einhverjir stunda nám í íslensku og einstaka yrkir á íslensku þótt móðurmálið sé annað.

Það var Randi Stebbins, ein af stofnendum Ós tímaritsins og einn ritstjóra fjórða heftisins sem ávarpaði fullan Sunnusal á efri hæðinni í Iðnó þann 27. febrúar þegar nýjasta heftinu var fagnað og minnti á ástæðuna fyrir því að Ós the journal varð til árið 2015. Nefnilega ekki aðeins til að gefa skáldum á jaðrinum tækifæri heldur einnig og ekki síður til að auka fjölbreytni íslensks bókmenntalífs hvað varðar tungumál , hvað varðar höfunda sem og ólíkar gerðir skáldskapartexta.

Hér fyrir neðan má hlusta á dagskrána í Sunnusalnum í Iðnó í heild.

Mynd: Ós pressan / Ós pressan
4. hefti tímaritsins Ós the Journal