Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ísland viðhaldi góðum samskiptum við Bretland

24.06.2016 - 11:55
Erlent · Innlent · Brexit · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu ætti ekki að hafa skaðleg áhrif á samband Bretlands og Íslands. Ísland ætti að leggja áherslu á að viðhalda góðum pólitískum og efnahagslegum samskiptum við Bretland.

Bjarni segir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi vera stórtíðindi, fyrir Bretland og fyrir Evrópusamvinnuna. Þótt Ísland eigi mikilla hagsmuna að gæta, sé vert að muna að hin eiginlega úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu komi til með að taka einhver ár. 

 „Ef við reynum að meta okkar hagsmuni til skamms tíma þá mun það kannski fyrst og fremst ráðast af því hvaða efnahagslegu áhrif þetta hefur í Bretlandi, hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á eftirspurn eftir okkar afurðum,“ segir Bjarni.

Til lengri tíma litið ætti þetta ekki að hafa skaðleg áhrif á samband Bretlands og Íslands.

„Við eigum þvert á móti að leggja mikla áherslu á það núna að við viljum viðhalda góðum samskiptum á pólitískum og viðskiptalegum grundvelli við Bretland, en við þurfum aðeins að leyfa tímanum að líða til þess að línur skýrist aðeins hvernig Bretar vilja snúa sér í slíku samtali þegar að því kemur.“

Málefni Bretlands og ESB voru rædd á ríkisstjórnarfundi í morgun. Bjarni segir að ríkisstjórnin hafi fylgst náið með málinu og reynt að leggja mat á áhrifin af úrsögn Breta úr ESB eins og hægt er.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sagði sömuleiðis í sjónvarpsfréttum í gærkvöld að utanríkisráðuneytið hafi í samvinnu við önnur ráðuneyti unnið sérstakt hagsmunamat vegna úrsagnar Breta úr ESB, og kortlagt möguleika sem þá gætu komið upp varðandi Ísland.