Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísland tekið við formennsku í Norðurskautsráði

07.05.2019 - 12:42
Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnlandi.
 Mynd: Utanríkisráðuneytið - RÚV
Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu í morgun. Í fyrsta sinn í 23 ára sögu ráðsins kom það sér ekki saman um yfirlýsingu á fundi utanríkisráðherra aðildarríkjanna. Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra segist ekki hafa fundið aukna spennu milli ríkja á fundi ráðherranna í Finnlandi.

Ríkin sem eiga aðild að ráðinu eru Norðurlöndin; Ísland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur og Finnland; ásamt Bandaríkjunum, Rússlandi og Kanada. Hingað til hefur verið lítið tekist á um stefnumál í Norðurskautsráðinu en í gær bárust fregnir af því að bandarísk stjórnvöld hefðu sett sig upp á móti tilvísunum í loftslagsmál í sameiginlegri yfirlýsingu sem átti að gefa út í dag.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vill ekki segja til um það hvort bandarísk stjórnvöld hafi sett sig upp á móti orðalagi í yfirlýsingunni. „Ég ætla ekkert að kveða upp úr um neina slíka hluti. Enda vita það allir og engin frétt að það eru mismunandi sjónarhorn og sjónarmið þegar kemur að þessum málum,“ segir utanríkisráðherra. 
 

epa07552835 Members of Arctic States Finland, Canada, the Kingdom of Denmark,  Iceland, Norway, the Russian Federation, Sweden and the United States and members of permanent participants, the Aleut International Association, the Arctic Athabaskan Council, Gwich'in Council International, the Inuit Circumpolar Council, Russian Association of Indigenous Peoples of the North and the Saami Council and Heads of Delegations gather for family photo in Lappia Hall, Rovaniemi, Finland, 07 May 2019.  The 11th Arctic Council Ministerial runs from 06 to 07 May 2019. Finland, which led the Arctic Council from 2017-2019, will pass the chairmanship of the high-level intergovernmental forum to Iceland during the meeting.  EPA-EFE/KIMMO BRANDT
 Mynd: EPA-EFE - COMPIC
Utanríkisráðherrarnir ásamt öðrum fulltrúum í ráðinu.

Ráðherrayfirlýsing í stað sameiginlegrar yfirlýsingar

Eftir fundinn í morgun var ekki gefin út sameiginleg yfirlýsing, í fyrsta sinn í 23 ára sögu ráðsins. Ráðherrarnir átta skrifuðu þess í stað undir sameiginlega ráðherrayfirlýsingu, þar sem hvergi er minnst á loftslagmál. „Niðurstaðan var bara þessi að fara þessa leið. Þetta eru auðvitað ólík ríki með ólikar skoðanir, ólíkar ríkisstjórnir,“ segir Guðlaugur Þór. 

Um hvað snérist ágreiningurinn? 

„Það er nú bara svona almenna reglan að vera ekkert að fara í það. Og gott að þessi niðurstaða náðist,“ segir utanríkisráðherra. Hann telur jákvætt að allir átta utanríkisráðherrarnir hafi mætt á fundinn, í annað skipti í sögu ráðsins. 

Ert þú sáttur við þessi niðurstöðu?

„Aðalatriðið í mínum  huga er að það er mikill áhugi á Norðurskautsráðinu og það endurspeglast meðal annars í þátttökunni á þessum fundi.“

Á fundinum í morgun tók Ísland við formennsku í ráðinu af Finnlandi. Undir formennsku Íslands verður meðal annars lögð megináhersla á málefni hafsins, loftslagsmál og grænar lausnir, og fólkið og samfélög á norðurslóðum. „Síðan í fjórða lagi þá leggjum við áherslu á að styrkja Norðurskautsráðið. Þetta er lang mikilvægasti vettvangurinn sem fjallar um mál sem tengjast norðurskautinu og mikilvægt að styrkja það enn frekar,“ segir Guðlaugur Þór.