Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ísland tapaði naumlega fyrir Svíþjóð

Mynd: Tomasz Kolodziejski / RÚV

Ísland tapaði naumlega fyrir Svíþjóð

27.09.2018 - 22:10
Ísland og Svíþjóð áttust við í kvöld í vináttulandsleik kvenna í handbolta. Þetta var fyrri vináttuleikurinn af tveimur sem liðin leika hér á landi í vikunni en bæði eru að búa sig undir stór verkefni á komandi mánuðum. Svo fór að Svíþjóð fór með sigur af hólmi 26-25 í æsispennandi leik.

Íslenska liðið tekur þátt í forkeppni næsta heimsmeistaramóts í lok nóvember. Þá mætir liðið Makedóníu, Tyrklandi og Aserbaíjan í riðli sem er spilaður í Makedóníu mánaðamótin nóvember/desember. Aðeins eitt lið kemst áfram í umspil. Svía eru aftur á móti að búa sig undir lokakeppni EM sem er í Frakklandi í desember. Svíar eru með eitt besta lið Evrópu og fóru þær alla leið í undanúrslit síðasta heimsmeistaramóts í desember í fyrra.

Íslenska liðið sýndi sterku sænsku liði litla miskunn í byrjun leiks og komst í 4-2. Eftir það tóku Svíar hins vegar góðan rykk og náðu á 8 mínútum að breyta stöðunni í 10-6 sér í vil. Þá tók íslenska liðið aftur við sér og eftir tvö mörk í röð frá Theu Imani Sturludóttur var íslenska liðið komið aftur yfir, 12-11, og sex mínútur til leikhlés. Íslenska liðið náði svo að auka muninn í tvö mörk fyrir hlé en þegar gengið var til búningsklefa var staðan 15-13 Íslandi í vil.

Ísland hélt forskotinu framan af seinni hálfleik en eftir átta mínútur voru þær sænsku komnar aftur yfir, 18-17. Svíar gengu á lagið og náði fljótlega fjögurra marka forskoti en þá kviknaði aftur á íslenska liðinu. Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir minnkaði Helena Rut Örvarsdóttir muninn í eitt mark og skömmu síðar gat íslenska liðið jafnað en Filippa Idehn varði frá Örnu Sif Pálsdóttur af línunni. Svíar náðu svo að hanga á þessum eins marks mun og unnu 26-25.

Liðin mætast að nýju á laugardag að Ásvöllum. Hefst leikurinn klukkan 16 og verður í beinni útsendingu á RÚV.

Rætt er við Isabelle Gulldén leikmann Svía, Kareni Knútsdóttur leikmann og Axel Stefánsson þjálfara íslenska landsliðsins í spilaranum hér fyrir neðan.