Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ísland samþykkti yfirlýsingu NATO

15.04.2018 - 11:42
Mynd: RÚV/Silfrið / RÚV/Silfrið
Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir að Ísland hafi samþykkt yfirlýsingu NATO í gær. Í yfirlýsingunni er lýst fullum stuðningi við loftárásir í Sýrlandi. Borgar segir að í yfirlýsingunni komi fram að algjör samstaða sé um það meðal ríkja heims að notkun efnavopna verði ekki liðin. NATO gefi aldrei frá sér yfirlýsingu án þess að öll bandalagsríkin séu því samþykk.

Borgar Þór, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, Kristinn Hrafnsson blaðamaður og Jón Ólafsson prófessor voru gestir Silfursins í morgun. 

Fyrst til umræðu í þættinum voru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við loftárásum Bandaríkjamanna, Frakka og Breta á Sýrland í fyrrinótt og yfirlýsing NATO í gær. Yfirlýsing var birt á vef NATO síðdegis í gær þar sem segir að allar bandalagsþjóðirnar styðji hernaðaraðgerðirnar. Íslenskir ráðamenn höfðu fyrr um daginn sagt árásirnar skiljanlegar og að þær hefðu verið fyrirséðar. Ekki var lýst afdráttarlausum stuðningi við árásirnar. 

Borgar sagði að á fundi NATO í gær hafi fulltrúar ríkjanna þriggja sem stóðu að loftárásunum á Sýrland, kynnt aðgerðirnar fyrir bandalagsþjóðunum sem eru 29. Anna Jóhannsdóttir, fastafulltrúi Íslands, hafi á fundinum gert grein fyrir afstöðu Íslands að pólitískra lausna yrði leitað áður en gripið væri til hernaðaraðgerða. Deilan í Sýrlandi yrði aldrei leyst með vopnavaldi. Hins vegar sé ekki hægt að sitja aðgerðalaus hjá. Um þá afstöðu hafi verið fullt samráð innan ríkisstjórnarinnar. 

„Áður en að fundinum kemur hafa ríkin auðvitað farið yfir drögin að yfirlýsingunni. Það er auðvitað þannig að sum ríki vildu ganga miklu lengra og sum ríki skemur. Á endanum næst þarna málamiðlun. Það er rauði þráður í þessari yfirlýsingu NATO er að það er algjör samstaða um það meðal ríkja heims að notkun efnavopna verði aldrei liðin undir neinum kringumstæðum. Við erum búin að vera aðili að samkomulagi gegn útbreiðslu efnavopna í meira en 20 ár. Við höfum alltaf talað gegn útbreiðslu efnavopna. Okkar afstaða í þessu máli ræðst fyrst og fremst af því að við teljum þessar aðgerðir skiljanlegar við mótmælum þeim ekki og við fylgjum þeirri samstöðu sem að er meðal allra vestrænna ríkja í málinu.“

Kristinn Hrafnsson spurði hann þá að því hvort það væri þá rétt og satt hjá Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, þegar hann sagði að Ísland og allar NATO þjóðir hefðu stutt árásirnar. „Við samþykkjum yfirlýsinguna,“ sagði Borgar Þór. „Við stöndum að yfirlýsingunni með þeim skýringum sem við gefum á fundinum. NATO hefur aldrei sent frá sér nokkurn skapaðan hlut án þess að allir væru með. Aldrei. Þetta eru 29 ríki.“

Kristrún sagði að íslensk stjórnvöld hafi lýst skilningi á aðgerðunum, en ekki stuðningi. „Svo verður fólk að gera sér grein fyrir því að það er ekki að fara fram atkvæðagreiðsla með nafnakalli á fundi hjá NATO. NATO er ekki þannig skipulagt. Það eina sem Ísland hefði getað gert er að beita neitunarvaldi. Áður en Ísland fer að beita neitunarvaldi þarf það að segja sig úr NATO. Þannig að allir sem ræða öryggismál á Íslandi þurfa að gera sér grein fyrir því að það eru tveir valkostir, það er að segja sig úr NATO eða vera í NATO og fylgja þeim leikreglum sem þar eru.“

 

Mynd: RÚV/Silfrið / RÚV/Silfrið