Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ísland heiðursgestur en Harry Potter logar

Mynd með færslu
 Mynd: LearningLark - Wikimedia Commons

Ísland heiðursgestur en Harry Potter logar

04.04.2019 - 12:34

Höfundar

Ísland var í öndvegi á bókamessunni í Gdansk sem haldin var síðustu helgi - en á meðan íslenskir höfundar kynntu bækur sínar fyrir messugestum, brunnu bækurnar um galdrastrákinn Harry Potter á báli skammt frá.

Bókabrennur eru ekki nýjar af nálinni. Þýska ljóðskáldið Heinrich Heine skrifaði árið 1823 um bókabrennur: „Þetta er aðeins forspilið. Þar sem bækur eru brenndar verður fólk að lokum brennt líka.“ Hér er vitnað í leikritið Almansor sem kom út árið 1921, en á þeim tíma voru bókabrennur víða stundaðar. Enn í dag eru bækur brenndar af andstæðingum þeirra og nýverið var bókunum um Harry Potter fleygt á bálið í pólsku borginni Gdansk.

Bækurnar um Harry  eru ein vinsælasta bókasería sögunnar, en meira en 500 milljón eintök hafa verið seld um heim allan og ekkert lát er á vinsældum þeirra. Bækurnar fjalla eins og flestir vita um galdrastrákinn Harry Potter, skólagöngu hans í Hogwarts-skólanum og baráttuna við ill öfl í galdraheiminum.

epa01069503 A book with the partly hidden cover of the new Harry Potter-volume titled 'Harry Potter and the Deathly Hallows' surrounded by former Potter-books Vienna, Austria, 18 July 2007.  EPA/ROLAND SCHLAGER
 Mynd: EPA

Harry og félögum hefur verið tekið fagnandi af bæði barnungum og fullorðnum lesendum sem heillast af spennunni, dulúðinni og litríku persónugalleríi bókanna sem saman stendur meðal annars af nornum, varúlfum, galdrakörlum og draugum. Ekki eru þó allir eins hrifnir. Á meðal strangtrúaðra kristinna hafa einhverjir löngum agnúast út í bækurnar á þeim forsendum að þær innihaldi guðlast og að í þeim leynist satanískur boðskapur. Heiftin hefur orðið svo mikil að andstæðingar bókanna hafa jafnvel séð sig knúna til að leggja eld að þeim, til að brenna burt hinn ókristilega boðskap.

Á sama tíma og Harry Potter bækurnar voru ásamt fleirum brenndar í Gdansk var haldin bókamessa þar í borg þar sem bækur voru hylltar. Í þetta sinn var það Ísland sem var heiðursgestur messunnar og íslenskir höfundar voru sérstaklega boðnir á hátíðina til að kynna bækur sínar fyrir gestum og heimafólki. Á meðan íslensku höfundarnir lásu úr bókum sínum teygðu sig logar til himins og staflar af bókum um galdradrenginn fuðruðu upp í næsta nágrenni. 

Brennuvargarnir reyndust vera kaþólskir prestar í Póllandi en þeir deildu myndum af athæfinu á Facebook-síðu sinni, þar sem afrískar grímur og fjöldinn allur af bókum brunnu upp til agna. Prestarnir sendu frá sér yfirlýsinguna: „Við trúum orðinu,“ og deildu myndum af brunarústunum ásamt tilvitnunum úr Biblíunni þar sem galdrar eru fordæmdir.

Kaþólskir prestar í Gdansk stóðu fyrir bókabrennu.
 Mynd: SMS z nieba - Facebook
Prestarnir deildu myndum frá brennunni á Facebook.

Heinrich Heine skrifaði um bókabrennur, að þær væru aðeins forspil þess að fólk yrði brennt. Einhverjir hafa síðan bent á að segja megi að Heinrich hafi reynst sannspár því eins og frægt er stóðu nasistar fyrir bókabrennum og síðar skipulögðum fjöldamorðum. Bækurnar sem nasistarnir brenndu voru mestmegnis eftir höfunda sem aðhylltust trúarbrögð eða skoðanir sem þeir töldu sér fjandsamlegar. Þeirra á meðal voru bækur eftir gyðinga, og einn sá gyðingur var Heinrich Heine. 

Blessunarlega má teljast ólíklegt að slík voðaverk endurtaki sig í Póllandi í bráð þrátt fyrir uppátæki prestanna. Það hryggir þó marga að fólk finni sig enn í dag knúið til að bera eld að bókum sem ekki samræmist heimssýn þeirra á sama tíma og bókelskt fólk kemur saman á bókamessu og fagnar hinu ritaða orði.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Íslenskar bókmenntir í öndvegi í Gdansk

Menningarefni

Plebbarnir spyrja spjörunum úr

Bókmenntir

Rowling ráðleggur upprennandi höfundum

Kvikmyndir

Dumbledore á Ölstofunni