Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ísland gott fyrir samkynhneigða

08.08.2015 - 13:15
epa04548042 Melissa Keller (L) and her partner Joanne Stiger (R) exchange rings as they apply for a marriage license in Fort Lauderdale Florida, USA, 06 January 2015. Same sex marriage is now legal in the state of Florida following a court ruling stating
 Mynd: EPA
Mikill meirihluti landsmanna telur Ísland góðan stað fyrir samkynhneigða. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Ísland er í hópi þeirra landa þar sem svarendur telja bestu búsetuskilyrði vera fyrir samkynhneigða.

Spurt var: Telur þú svæðið sem þú býrð á góðan eða slæman stað til að búa á fyrir samkynhneigða?

Áttatíu og sex prósent þeirra sem taka afstöðu telja sitt svæði að öllu leyti, mjög eða frekar gott til búsetu fyrir samkynhneigða. Þrettán prósent segja svæðið hvorki gott né slæmt. Tvö prósent þeirra, sem taka afstöðu, telja að svæðið sem þeir búa á sé ekki gott fyrir samkynhneigða að búa á.

Munur var á svörum landsmanna eftir aldri og töldu þeir sem eru 60 ára eða eldri síst að staðurinn sem þeir búa á væri góður til búsetu fyrir samkynhneigða. Íbúar höfuðborgarsvæðisins töldu frekar en íbúar landsbyggðarinnar að þeir byggju á stað sem væri góður til búsetu fyrir samkynhneigða.

Gallup gerði sambærilega könnun í fleiri löndum og eru Íslendingar á meðal þeirra sem telja sitt svæði best til búsetu fyrir samkynhneigða. Aðeins Holland og Spánn eru fyrir ofan Ísland á listanum. Mörg Evrópulönd eru í efstu sætum listans. Þau lönd sem raða sér í botnsæti listans eru Senegal, Azerbaídsjan, Pakistan og Búrúndi. Innan við fjögur prósent svarenda í könnuninni í þessum löndum telja búsetuskilyrði þar góð fyrir samkynhneigða.