Ísland fellur ekki undir sölubann ESB á hlífðarbúnaði

19.03.2020 - 23:10
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti á fundi sínum í kvöld að bann við útflutningi á hlífðarbúnaði út fyrir ríki Evrópusambandsins nái ekki til EFTA-ríkjanna sem eiga aðild að EES. Íslensk stjórnvöld mótmæltu reglugerð Evrópusambandsins sem hefði komið í veg fyrir að hægt væri að flytja hingað hlífðarbúnað frá ESB sem nauðsynlegur er í baráttunni gegn COVID-19.

Forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið birtu í kvöld fréttatilkynningar þessa efnis. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kom á framfæri mótmælum við Evrópusambandið daginn sem bannið var sett á. Það var gert í samstarfi við norsk stjórnvöld. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi í dag við Ursulu Von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í síma. Þær ræddu lokun landamæra ríkja ESB og útflutningsbann sjúkravara frá Evrópusambandsríkjum. Úr varð að Von der Leyen myndi beita sér fyrir því að bannið næði ekki til Íslands. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kemur fram að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni senda frá sér leiðrétta reglugerð. Með henni verður tryggt að útflutningsbannið nær ekki til EFTA-ríkjanna. Sú reglugerð tekur strax gildi.

Leiðrétt hefur verið hvenær upphaflegum mótmælum var komið á framfæri og fyrirsögninni hefur verið breytt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi