Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ísland endaði í 11. sæti af 12 liðum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ísland endaði í 11. sæti af 12 liðum

25.06.2017 - 18:29
Enginn Íslendingur komst á verðlaunapall í dag í Evrópubikarkeppni landsliða í frjálsum íþróttum. Mótið hófst í gær og er haldið í Tel Aviv í Ísrael. Samtals eru 32 íslenskir keppendur í 19 greinum og því nóg um að vera.

Mótið hefur aldrei verið sterkara. Ísland keppir í 2. deild ásamt tólf öðrum þjóðum, Ungverjalandi, Slóvakíu, Litáen, Slóveníu, Kýpur, Lettlandi, Króatíu, Ísrael, Austurríki, Serbíu og Moldóvu. Fjölgað hefur í deildinni um fjórar þjóðir frá árinu 2015.

Eftir 38 greinar af 40 er Ísland í 11. sæti. Tvö neðstu lið deildarinnar falla í 3. deild.

Fjórar á verðlaunapall í gær

Í gær hreppti Aníta Hinriksdóttir gull í 800 m hlaupi. Arna Stefanía Guðmundsdóttir fékk silfur í 400 m grindahlaupi. Ásdís Hjálmsdóttir endaði í öðru sæti í spjótkasti og Hulda Þorsteinsdóttir fékk bronsverðlaun í stangarstökki.

Íslandsmet var sett í 4x100 m hlaupi karla. Tíminn var 40,40 sekúndur en metið var áður 40,45 sekúndur. Gamla metið lifði ekki lengi því að það var sett á Smáþjóðaleikunum 3. júní. Íslensku sveitina skipuðu þeir Ari Bragi Kárason, Björgvin Brynjarsson, Ívar Kristinn Jasonarson og Kolbeinn Höður Gunnarsson.

Engin verðlaun í dag

Enginn Íslendingur komst á verðlaunapall í dag. Ásdís Hjálmsdóttir keppti í kúluvarpi og lauk leik í fimmta sæti með 14,65 metra kasti. Guðni Valur Guðnason endaði í sjötta sæti í kringlukasti en hann kastaði 57,89 metra.

Kolbeinn Höður Gunnarsson hljóp 200 metra á 21,23 sekúndum en það skilaði honum fimmta sætinu.

Í 4x400 m boðhlaupi kvenna hafnaði lið Íslands í fjórða sæti og í 4x400 metra boðhlaupi karla var lið Íslands í þriðja sæti.