Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ísland beiti sér gegn drápsvélum

17.08.2015 - 17:04
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Ísland er lítil þjóð sem á ekki hagsmuna að gæta og getur því tekið afstöðu gegn vitibornum vígvélum og fengið aðra með sér. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Hún hyggst á næstunni leggja fram þingsályktunartillögu um bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra vígvéla.

Kalashnikov-rifflar morgundagsins

Í lok júlí skrifuðu á annað þúsund virtra vísindamanna á sviði gervigreindar, sem saman voru komnir á fundi í Buenos Aires, undir áskorun til Sameinuðu þjóðanna um að banna framleiðslu drápsvélmenna. Þeir telja að sjálfvirkar vígvélar yrðu mannkyninu ekki til góðs, þær gætu orðið Kalashnikov-rifflar morgundagsins. Þá yrðu þær vel til þess fallnar að greina útlitseinkenni ákveðinna etnískra hópa og beita sér gegn þeim. Gervigreind geti gagnast í stríði á ýmsa vegu, gert vígvelli öruggari og dregið úr mannfalli. Framleiðsla sjálfvirkra drápsvéla þjóni hins vegar ekki þeim markmiðum. Hjálpar- og björgunarsamtök Japans sendu einnig frá sér yfirlýsingu þann 5. ágúst síðastliðinn, í tilefni þess að 70 ár voru í þessum mánuði liðin frá árásunum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. 

Hraðari þróun en talið var

Katrín tekur undir ákall vísindamannanna. „Það sem vekur auðvitað athygli er að sjá að undir þennan lista skrifa margir af færustu vísindamönnum heims, Stephen Hawking og Steve Wozniak sem er meðstofnandi Apple-fyrirtækisins. Auðvitað eiga stjórnmálamenn að leggja við eyrun þegar slíkur fjöldi fólks frá ólíkum löndum sem allt hefur náð árangri í sínum geira sendir svona sterka viðvörun við þessari þróun sjálfstýrðra og sjálfvirkra vígvéla. Ég held það sé mjög mikilvægt að við hlustum eftir því sem þau hafa að segja, þó manni finnist þetta eins og vísindaskáldskapur er margt sem bendir til þess að þróunin verði mun hraðari en við sjáum fyrir.“

Hergagnaframleiðendur leikið lausum hala

Í drögum að greinargerð með þingsályktunartillögu Katrínar segir að á undanförnum árum hafi verið þróaðar ómannaðar sjálfvirkar og sjálfstýrðar vígvélar sem útbúnar séu gervigreind og því færar um að ráðast að fólki og deyða það á grundvelli eigin ákvarðana og án atbeina mannlegrar dómgreindar. Þróunin sé hröð og hætt sé við því að tæknin breiðist út og gerbreyti hernaði og vígbúnaði. Katrín segir litla umræðu hafa farið fram um vígvélar þrátt fyrir að þær veki upp fjölda siðfræðilegra og lagalegra álitamála. Hergagnaframleiðendur og herstjórar hafi leikið lausum hala, eins og svo oft áður, og almenningur standi frammi fyrir gerðum hlut þegar nýjustu drápstólin komi í ljós við færibandaenda hergagnaverksmiðjanna.

Tortímandinn kemur upp í hugann

„Ég er ekki tæknilega menntuð og fyrsta hugmynd mín um vígvélar eru nú bara úr Tortímandamyndunum en ég vil taka mark á þessum vísindamönnum sem benda á að þessi nýja tækni muni breyta svo stöðu mála í heiminum að hún muni í raun skapa nýtt vígbúnaðarkapphlaup í líkingu við það þegar kjarnorkan kom fram á sjónarsviðið, þegar púðurtæknin kom fram. Þá verður alger bylting í vígbúnaðarmálum. Munurinn á þessum vígvélum og kjarnorkuvopnum er að þær eru einfaldari í framleiðslu. Þær þurfa ekki jafnmikið af efnum. Það er ekki ólíklegt að þetta verði keppikefli, ekki bara ríkja heldur ýmis konar hópa, að komast yfir vélar,“ segir Katrín. 

Ekki á móti framförum

Hún segir siðferðislegu álitamálin sem kæmu upp ófá. „Hver ætti til dæmis að bera ábyrgð á stríðsglæpum? Á þetta hefur verið bent. Við höfum stundum getað sameinast um að banna ákveðna tækni, ákveðin vopn. Það eru sumir sem segja að þar með sé maður á móti framförum. Alldeilis ekki hreint. Þessi tækni, gervigreindin. Hana er hægt að nota til margra frábærra mála og þjóðþrifaverka en hér gætum við verið að breyta stríðsátökum framtíðarinnar með óafturkræfum hætti. 

Augljóslega handan við hornið

Kristinn R. Þórisson, forstöðumaður Vitvélastofnunar Íslands, ákvað að skrifa undir áskorunina. Hann segir að við höfum núna tækifæri til þess að sporna við þróun vítisvéla sem ákveða hverjir lifa og hverjir deyja en sú þróun sé augljóslega handan við hornið. „Það væri fásinna að setjast bara í hægindastólinn og segja: Við sjáum bara til hvað gerist. Við þurfum ekkert að lyfta fingri, Ísland er hvort eð er herlaust land. Ég held að Ísland sé einmitt góður staður til þess að vera með einhverjar raddir um afstöðu til þessara mála. Ef við viljum stuðla að friði í heiminum viljum við augljóslega ekki að vígbúnaðarkapphlaup með gervigreindardrápsvélar fari yfirleitt af stað eða úr böndunum.“