ÍSÍ veitir innsýn í líf afreksíþróttafólks

Mynd með færslu
 Mynd: ÍSÍ

ÍSÍ veitir innsýn í líf afreksíþróttafólks

05.11.2019 - 12:15
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hleypir í lok vikunnar af stokkunum verkefninu Hvernig er dagur í lífi afreksíþróttamanns? á Instagram. Eins og nafnið gefur til kynna er ætlunin að gefa innsýn í það hvernig daglegt líf afreksíþróttafólks er.

Frá og með föstudeginum næsta mun íslenskt afreksíþróttafólk skiptast á að taka yfir Instragramsíðu ÍSÍ, @isiiceland, einn dag í viku.

Þar mun fólki gefast kostur á að sjá hvernig dagur í lífi íþróttafólksins er, æfingar og daglegt streð.

Íþróttafólkið mun bæði hlaða inn myndum og setja myndbönd á Instagram Story.

Fyrstur til að opna dyrnar að lífi sínu er badmintonmaðurinn Kári Gunnarsson. Eins og greint var frá fyrr í dag rær Kári að því öllum árum að komast á Ólympíuleikana í Tókíó næsta sumar og mikið um að vera hjá honum. Hann býr og æfir í Danmörku og undirbýr sig undir sterkt mót á Írlandi eftir helgi.

 

„Eitt af því mikilvægasta sem ég hef lært er að vera ekki of harður við sjálfan mig og muna að hafa gaman af þessu öllu. Það hljómar einfalt en það er það ekki - þeir sem hafa prufað það vita það. Ég er mjög þakklátur að eiga tækifæri á að keppa á alþjóðlegum mótum sem fulltrúi Íslands, kynnast heiminum og sjálfum mér“, segir Kári Gunnarsson í tilkynningu ÍSÍ.

 

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Kári safnar til að reyna við Ólympíuleikana