ÍSÍ fundaði með forseta Alþjóða ólympíunefndarinnar

Mynd með færslu
 Mynd: ÍSÍ

ÍSÍ fundaði með forseta Alþjóða ólympíunefndarinnar

19.03.2020 - 08:01
ÍSÍ, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands átti í gær fjarfund með Thomasi Bach forseta IOC, Alþjóða ólympíunefndarinnar vegna stöðunnar í heiminum af völdum kórónaveirunnar. Aðeins tæpir fórir mánuðir eru þar til Ólympíuleikarnir í Tókýó eiga að hefjast.

Lárus Blöndal forseti ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri og Andri Stefánsson sviðsstjóri Ólympíu- og afrekssviðs ÍSÍ sátu fjarfundinn með Bach fyrir hönd ÍSÍ, en á fundinum voru jafnframt aðrir fulltrúar ólympíunefnda í Evrópu.

Á fundinum kom fram að IOC biðli til allra hagsmunaaðila að vera ábyrgir og leita leiða til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu á COVID-19. Ástandið í heiminum hefur haft áhrif á undirbúning Ólympíuleikanna í Tókýó. Stefna IOC og skipuleggjenda Ólympíuleikanna er samt sem áður að halda áfram undirbúningi og stefna á að leikarnir verði að veruleika á tilsettum tíma, 24. júlí.

Telja ekki þörf á róttækum ákvörðunum

Á fjarfundinum kom það skýrt fram að IOC telji enga þörf á róttækum ákvörðunum á þessu stigi og hvetur allt íþróttafólk til að halda áfram undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana. Ákveðið var að samþykkja eftirfarandi meginreglur varðandi Ólympíuleikana í Tókýó 2020:

1. Að vernda heilsu allra sem koma að leikunum og að styðja við aðgerðir sem koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.

2. Að gæta hagsmuna íþróttafólks og ólympískra íþrótta. 

Þátttakendur á fundinum voru sammála því að fara að tilmælum Alþjóða ólympíunefndarinnar. IOC mun halda áfram að fylgjast með stöðu mála allan sólarhringinn og deila út til íþróttahreyfingarinnar upplýsingum um leið og þær berast.