Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Isavia tapaði tveimur milljörðum á WOW air

01.10.2019 - 14:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Isavia tapaði rúmlega tveimur og hálfum milljarði króna á fyrri helmingi árs. Það er mikill viðsnúningur frá síðasta ári þegar fyrirtækið hagnaðist um rúmlega einn og hálfan milljarð fyrstu sex mánuði ársins. Viðsnúninginn má að stærstum hluta rekja til gjaldþrots flugfélagsins WOW air. Isavia varð að færa niður kröfu á hendur WOW air upp á tvö milljarða króna.

Tapið á fyrri hluta árs nam 942 milljónum króna fyrir fjármunaliði, gengismun og skatta. Að teknu tilliti til alls þessa var tapið tveir milljarðar og 524 milljónir króna. 

Rekstrartekjur Isavia drógust saman úr 19 milljörðum í 18,2 milljarða. Starfsmannakostnaður var um það bil helmingur tekna, 9,5 milljarðar króna. Gengismunur var neikvæður um 1,8 milljarða króna.

Ferðamönnum sem fóru um Keflavíkurflugvöll fækkaði mjög eftir gjaldþrot WOW air í mars. Fimmtungi færri farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll á fyrri hluta árs en á sama tíma í fyrra.

Leiðrétt 15:17 Isavia tapaði tveimur milljörðum á falli WOW air en ekki 2,8 milljörðum króna eins og sagði í upphaflegri gerð fréttarinnar. Það byggði á misritun í tilkynningu Isavia.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV