Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Isavia ætlar ekki að afhenda gögnin

17.10.2015 - 16:21
OZZO
 Mynd: ISAVIA/© OZZO Photography - ISAVIA
Isavia ætlar ekki að skila gögnum til Kaffitárs um forval á leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þrátt fyrir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi gert félaginu að skila gögnunum. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ekki reynt á það áður að opinbert félag neiti að skila gögnum eftir úrskurð.

Úrskurðarnefndin hefur tvívegis komist að þeirri niðurstöðu að Isavia beri að skila gögnum til Kaffitárs en Isavia segir að þau innihaldi viðkvæmar upplýsingar um samkeppnisaðila. Dómsmál Kaffitárs gegn Isavia var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Isavia fékk frest til þrítugasta þessa mánaðar til að skila greinargerð. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ekki reynt á það áður að opinber aðili afhendi ekki gögn eftir úrskurð nefndarinnar. Í einhverjum tilvikum hafi gögnin ekki verið afhend á meðan úrskurðurinn fer fyrir dómstóla.

Geir Gestsson, lögmaður Kaffitárs, segir að þetta sé nauðsynlegt millistig í þeirri vegferð að fara til sýslumanns og óska eftir afhendingu gagnanna. Hann segir að Isavia beiti öllum brögðum til að komast hjá því að verða við úrskurði nefndar um upplýsingamál.

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, sagði í Vikulokunum á rás1 í morgun að úrskurðarnefndin sé ekki dómsvald. „Það sem er verið að biðja um núna eru ekki upplýsingar um hvernig Isavia vinnur. Það er verið að biðja um upplýsingar hvernig þessi fyrirtæki sem tóku þátt í þessu útboði vinna, það eru miklu meiri upplýsingar um fyrirtæki heldur en þau eðlilega myndu gefa,“ sagði Björn Óli. 

Hann segir að Isavia ætli ekki að afhenda gögnin og þannig halda trúnaði við fyrirtækin sem tóku þátt í útboðinu. „Við erum að fara til dómstólanna, erum að fara aðra leið og ætlum að reyna að fá þá viðurkenningu að þetta hafi ekki verið réttur úrskurður.“

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV