Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ísafjarðarbær vill að ríkið kaupi eyjuna Vigur

22.02.2019 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vill að umhverfis- og auðlindaráðherra og ríkisstjórn Íslands freisti þess að kaupa eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi og tryggja þannig aðgengi að eyjunni.

Mikill áhugi erlendis frá

Eyjan Vigur var sett á sölu síðasta vor og í fréttum hefur verið greint frá miklum áhuga erlendis frá. Davíð Ólafsson, fasteignasali hjá Borg fasteignasölu, segir að í janúar hafi til dæmis borist 30 fyrirspurnir, allar erlendis frá, margar frá Bandaríkjunum. Hann segir marga spyrjast fyrir um aðgengi þyrlu bæði í eyjunni sem og í friðlandi Hornstranda, en þyrlum er ekki heimilt að lenda í friðlandi Hornstranda. 

Vilja tryggja aðgang almennings að eyjunni

Í bókun bæjarstjórnar segir að í ljósi þess að erlendir aðilar virðast hafa mikinn áhuga á að kaupa eyjuna, og þess raunhæfa möguleika að eyjan verði seld og lokuð almenningi, skorar bæjarstjórn á ríkið að kaupa Vigur og með því tryggja áframhaldandi aðgang almennings að þessari náttúruperlu í Ísafjarðardjúpi. Undanfarna áratugi hafi verið starfrækt öflug ferðaþjónusta í Vigur en með því móti hafi almenningi og ferðamönnum gefist tækifæri á að njóta náttúrunnar og sögunnar í eynni. 

Merkileg náttúra og saga

Eyjan Vigur er ein þriggja eyja í Ísafjarðardjúpi og er önnur tveggja sem eru byggðar. Í eyjunni er alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð og uppfyllir fjöldi teista alþjóðleg verndarviðmið. Þar verpir einnig lundi og æðarfugl. Þá eru í eyjunni elsta vindmylla landsins, sem var byggð árið 1860, og elsti bátur landsins.