Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Íranar segja árásir á flugvelli hæfilega hefnd

08.01.2020 - 04:10
epa08111152 (FILE) - Ballistic missile Zelzal , is launched during the second day of military exercises, codenamed Great Prophet-6, by Iran's elite Revolutionary Guards at an undisclosed location in Iran, 28 June 2011 (Reissued 07 January 2020). According to Iranian state TV on 07 January 2020, Iran's Revolutionary Guard Crops (IRGC) launched a series of rockets targeting Ain al-Assad air base located in al-Anbar, one of the bases hosting US military troops in Iraq. The attack comes days after the Top Irani General Qassem Soleimani, head of the IRGC's Quds force, was killed by a US drone strike in Baghdad.  EPA-EFE/STRNGER
 Mynd: EPA-EFE - MEHR NEWS AGENCY
Íranar gerðu árás á tvo flugvelli í Írak, þar sem Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra, þar á meðal Írakar, Bretar og Ástralar, hafa bækistöðvar. Íranar segja árásirnar hefnd fyrir morð Bandaríkjamanna á íranska hershöfðingjanum Kasim Soleimani á föstudag.

Íranar staðfestu að þeir hefðu gert eldflaugaárásirnar á Ain al-Asad herflugvöllinn í Anbar-héraði í vestanverðu Írak og Erbil-flugvöll í landinu norðanverðu í gærkvöld.

Í yfirlýsingu frá Íranska byltingarverðinum segir að árásirnar hafi verið gerðar til að hefna fyrir morð Bandaríkjamanna á hershöfðingjanum Kasem Soleimani á föstudag. Skeytasendingar ráðamanna í Teheran og Washington eftir árásina vekja vonarneista hjá bjartsýnum stjórnmálaskýrendum.

Þar er enn fremur varað við því að Bandaríkjamenn svari árásinni með gagnárás, því slíku verði mætt með „enn harðari aðgerðum“. Bandaríkjaher er með bækistöðvar á báðum flugvöllum. Það er Íraksher líka, auk þess sem bæði Bretar og Ástralar hafa verið með mannskap á öðrum eða báðum völlum.

Fjölmargar flaugar fundu skotmörk sín en enginn dó

Fjölda eldflauga var skotið frá íranskri grundu á flugvellina tvo. Engar fregnir hafa borist af mannfalli í árásunum, en Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa flutt töluvert af liði sínu frá líklegum skotmörkum Írana eftir árásina á Soleimani, þar sem Íranar höfðu hótað hefndaraðgerðum. Ólíklegt þykir að þeir liðsflutingar hafi farið framhjá útsendurum Íranska byltingarvarðarins.

Íranar hafa „lokið hæfilegum gagnaðgerðum“

Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, sagði á Twitter eftir árásirnar að Íran hefði „gripið til og lokið hæfilegum gagnaðgerðum í sjálfsvörn,“ sem samræmdust 51. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um rétt þjóða til að bregðast við og verjast árásum á sig og sína. „Við viljum ekki stigmögnun átaka eða stríð,“ sagði Zarif, „en við munum verjast hvers kyns árásum.“

Allt er í lagi, skrifar Trump

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, tjáði sig líka um árásina á Twitter. „Allt er í lagi!“ skrifaði forsetinn. Verið væri að meta afleiðingar árásanna, slys á fólki og skemmdir á mannvirkjum, og ekkert alvarlegt komið í ljós enn. Í lok færslunnar segist hann ætla að senda frá sér yfirlýsingu um málið með morgninum.

Bjartsýnustu stjórnmála- og fréttaskýrendur hafa lesið út úr þessum skeytasendingum þeirra Zarifs og Trumps að þar með sé málinu mögulega lokið - í bili að minnsta kosti - og líkurnar á því að allsherjar stríð sé að skella á fyrir botni Persaflóa hafi minnkað nokkuð, eftir nokkurra daga vaxandi spennu og hótanir á báða bóga.