Iphone getur frosið í neyðartilvikum

25.10.2013 - 20:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Ein tegund Iphone síma á til að frjósa eftir um það bil hálfa mínútu þegar hringt er í neyðarnúmerið 1-1-2. Nokkur dæmi eru þar sem síminn hefur brugðist í alvarlegum neyðartilfellum. Neyðarlínan hefur sent Apple í Bandaríkjunum erindi vegna málsins.

Ef Iphone 4s sími er stilltur á 3G í símtali til Neyðarlínunnar, getur komið fyrir að símtalið slitni eftir tuttugu til fjörutíu sekúndur og síminn frjósi. Fréttastofa þekkir dæmi þess að símarnir hafi brugðist í alvarlegum neyðartilvikum, en þá hefur starfsfólk Neyðarlínunnar bent fólki á að notast frekar við annars konar farsíma, séu þeir við höndina eða heimasíma. Þetta hefur þó valdið töf á aðstoð sjúkraliðs, sem getur skipt sköpum. Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir að samtalið slitni og þá þurfi að endurræsa símann sem tekur eina eða tvær mínútur. 

Ástæða þess að gallinn virðist einskorðast við neyðarnúmerið 112 er sú að það er eina númerið sem er forritað í símana. Jónas mælir með því að notast við appið frá Neyðarlínunni. „Þá sér neyðarlínan strax hvar þú ert staddur. Þá er hægt að bregðast við með því að senda einhvern ef menn telja þær forsendur vera til staðar.“

Símtölin slitna þegar þau lenda á 3G sendi, en hundruð slíkra senda eru á landinu öllu, bæði frá Símanum og Vodafone. „Þá virðist þetta gerast í sem betur fer fæstum tilfellum, en er þó til staðar Neyðarlínan sendi erindi á Apple í Bandaríkjunum og það er möguleiki á því að þeir séu búnir að laga þetta en það er ekki búið að staðfesta það. Það er hægt að komast hjá þessu með því að slökkva á 3G. Það er gert með því að fara inn í Setttings, þaðan inn í Cellular og slökkva á 3G.“