Innlyksa íbúar biðu sem lamaðir eftir aðstoð

02.10.2019 - 22:13
Mynd: Bragi Valgeirsson / Bragi Valgeirsson
Fjórum var bjargað úr íbúðum í Suðurhólum í Breiðholti í Reykjavík í kvöld eftir að eldur kviknaði í fjölbýlishúsi. Íbúar sem voru innlyksa á efstu hæð hússins segjast hafa beðið sem lamaðir eftir aðstoð slökkviliðs. 

Eldsins varð vart upp úr klukkan hálf sjö í kvöld. Þegar slökkvilið bar að stóð reykur út um glugga á annarri hæð. Töluverður eldur var þá í íbúðinni sem er mikið skemmd. Þar var enginn þegar eldurinn kviknaði. Barn var fast í annarri íbúð á sömu hæð og þrennt á hæðinni fyrir ofan. Þeirra á meðal var Karolina sem býr á þriðju hæð. 

„Það var plastlykt, eins og bráðið plast. Við hlupum út og sáum reykinn koma undan hurð nágrannans. Þau voru ekki heima. Okkur var mjög brugðið og kölluðum í aðra nágranna okkar og reykurinn stigmagnaðist. “

Eldri sonur Karolinu hljóp einn út úr íbúðinni en Karolina treysti sér ekki í reykmökkinn sem blasti við. 

„Ég fór einn niður út af því að það kom maður og sagði okkur að fara niður og ég fékk enga hjálp en ég veit ekki af hverju,“ segir Viktor eldri sonur Karolinu. 

„Við eiginmaður minn héldum okkur inni með yngri syni mínum og við vorum sem lömuð. Og hann fór að gráta og þú veist..“

Hún hafi verið mjög hrædd og ekki vitað hvað hún ætti til bragðs að taka. 

„Já, mjög mikið. Og sérstaklega hrædd um hann því hann fór einn síns liðs niður og ég byrjaði að öskra og nánast gráta því ég vissi ekki hvað hafði komið fyrir hann því hann var einn í reyknum,  svo þetta var hrikalegt.“

Íbúð Karolinu fylltist af reyk svo þau biðu á svölunum eftir aðstoð. Um hálftíma síðar, þegar slökkviliðið hafði náð tökum á eldinum og reykræst var innlyksa íbúum hjálpað út. Að sögn varðstjóra varð engum alvarlega meint af en einn var fluttur á spítala með vott af reykeitrun. Sá hafði aðstoðað íbúa hússins við að komast út. Lögreglan hefur nú tekið við vettvangi. Eldsupptök eru ókunn að svo stöddu. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi